25.10.2024 10:35

Danir gera úttekt á COVID-19

Pólitísk þátttaka lykilgerenda í viðbrögðum við heimsfaraldrinum verður hugsanlega til þess að eftir kosningar vakni áhugi alþingismanna á að feta í fótspor danskra starfsbræðra. 

Í Danmörku er COVID-19-faraldrinum lýst sem „største krise siden Anden Verdenskrig“ – mesta hættuástandi í landinu frá annarri heimsstyrjöldinni – og nú hefur danska þingið falið VIVE, Det Nationale Forsknings- og Analysecenter for Velfærd , – rannsókna- og greiningarstofnun á sviði velferðarmála – að leggja mat á hvernig ríkisvaldið stóð að málum á tíma kórónafaraldursins og skila um það skýrslu haustið 2025.

Rannsaka skal hvaða áhrif einstök úrræði höfðu á útbreiðslu faraldursins, t.d. sýnatökur og innilokun, og leggja mat á hvað dugði best til að hefta útbreiðsluna.

Þá á að vega og meta jákvæð og neikvæð áhrif til dæmis af banni við skólagöngu barna, af opinberum útgjöldum og efnahag einstaklinga og fyrirtækja.

Þá er lögð áhersla á að meta áhrifin til skemmri og lengri tíma á meðferð sjúklinga á sjúkrahúsum sem leiddu til langra biðlista að faraldrinum loknum.

Jafnframt óska þingmennirnir eftir því að náið verði farið í saumana á öllu sem varðar bólusetningar. Lagt verði mat á ákvarðanir um notkun á nýjum bóluefnum, hvernig staðið var að bólusetningum og hvort þær hafi haft fylgikvilla.

Stinus Lindgreen, þingmaður radikala, sem hefur verið helsti hvatamaður opinberrar úttektar á COVID-19-faraldrinum í Danmörku segir að niðurstöður hennar verði gagnlegar „næst“, það er í næstu krísu í heiminum vegna smits og sjúkdóma sem vísindamenn eru sannfærðir um að verði einhvern tíma.

Þegar almannavarnalög voru sett hér fyrir tæpum 20 árum voru í þeim ákvæði þar sem gert var ráð fyrir að eftir hvert skipti sem til almannavarnaviðburða kæmi færi fram sérfræðileg úttekt á því sem gerðist. Ákvæðið, sem síðar var fellt brott, studdist meðal annars við fræðilega rannsókn eftir jarðskjálfta á Suðurlandi árið 2000. Má rekja svonefndar fjöldahjálparstöðvar við hamfarir til ábendinga í rannsóknarskýrslunni. Nú er mikil áhersla lögð á að kynna slíkar stöðvar sem hluta af almannavarnaviðbrögðum.

1257799Víðir Reynisson og Alma Möller búa sig undir að gefa þjóðinni COVID-fyrirmæli (mynd: mbl.is).

Hér á landi liggur ekki fyrir nein óhlutdræg úttekt eða rannsóknarskýrsla á þeim þáttum sem vikið er að í umboðinu til VIVE í Danmörku frá danska þinginu. Nú sækjast landlæknir á COVID-tímanum og yfirmaður almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra eftir að komast á þing fyrir Samfylkinguna sem var í stjórnarandstöðu í heimsfaraldrinum og ekki alltaf á bylgjulengd stjórnvalda.

Hér var á sínum tíma sýnd röð sjónvarpsþátta um viðbrögð stjórnvalda á COVID-tímanum. Þar liggur fyrir heimild sem sýnir hvernig staðið var að töku ákvarðana sem sviptu almenning frelsi og lokuðu samgöngum til landsins, svo dæmi séu nefnd. Skoða mætti það ferli og bera til dæmis saman við kröfur rannsóknarnefndar alþingis til stjórnsýslunnar um málsmeðferð í ljósi ákvarðana í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008. P

Pólitísk þátttaka lykilgerenda í viðbrögðum við heimsfaraldrinum verður hugsanlega til þess að eftir kosningar vakni áhugi alþingismanna á að feta í fótspor danskra starfsbræðra með rannsókn á viðbrögðum við COVID-19.