Dagur hagræðingar - verðbólguhætta
Í dag er 28. febrúar og engin tilkynning hefur verið birt enn um hvað forsætisráðherra og hagræðingarhópurinn ætlar að gera í tilefni dagsins.
Fyrstu vikur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur beindist athygli að ósk hennar á samráðsgátt stjórnvalda um að almenningur legði stjórninni lið við að finna leiðir til að hagræða í ríkisrekstri og vinna þar að aukinni hagsýni.
Mátti skilja allan málflutning forsætisráðherra á þann veg að þetta væri henni mikið kappsmál.
Skilafrestur fyrir hugmyndir og tillögur á samráðsgáttinni rann út 23. janúar sl. og þá birti forsætisráðuneytið fréttatilkynningu þar sem sagði í upphafi: „Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur skipað fjögurra manna starfshóp sem á að skila tillögum um hagræðingu í ríkisrekstri þann 28. febrúar.“ Í tilkynningunni stóð einnig:
„Ég vil þakka þjóðinni fyrir áhugann og aðstoðina í samráðinu. Við í ríkisstjórninni höfum mikla trú á þessari vinnu og hlökkum til að fá í hendur tillögur hagræðingarhópsins. Þetta er öflugur hópur með fjölbreytta reynslu úr atvinnulífi og opinberum rekstri,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í tilefni af skipun hópsins.
Í tilkynningu forsætisráðuneytisins 30. janúar um þetta sama mál sagði að alls hefðu borist 3.985 umsagnir á samráðsgáttina sem væri metfjöldi og um 0,7% þjóðarinnar hefði tekið þátt í samráðinu.
Af forsíðu Morgunblaðsins 28. febrúar 2025.
Langflestar umsagnir hefðu borist frá einstaklingum en rúmlega 60 frá félagasamtökum og fyrirtækjum. Tæplega 68% umsagna hefðu komið frá körlum en rúmlega 32 prósent frá konum. Í mörgum umsögnum hefðu verið settar fram margar tillögur en samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum væru alls um tíu þúsund tillögur að finna í umsögnunum, margar eins eða af mjög svipuðum toga.
Í dag er 28. febrúar og engin tilkynning hefur verið birt enn um hvað forsætisráðherra og hagræðingarhópurinn ætlar að gera í tilefni dagsins. Hér var haft á orði á sínum tíma að það væri heppilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að forsætisráðherra hefði valið þennan skiladag, upphafsdag landsfundar sjálfstæðismanna.
Fyrir fundinn hafa verið lagðar ýmsar tillögur um hagræðingu í opinberum rekstri og um leiðir til að auka athafnasvigrúm einstaklinga með minni ríkisumsvifum. Yki það líkur á framgangi tillagna hagræðingarhópsins ef samstaða myndaðist milli stjórnar og stjórnarandstöðu um tillögur til að minnka báknið.
Ríkisstjórnin þarf enn frekar en áður að sýna viðleitni til aðhalds eftir að hún hóf afskipti af kjaradeilu kennara að gerð kjarasamnings sem sérfróðir telja að ýti undir verðbólgu og vakið hefur ótta innan um örlög almennu langtímasamninganna sem gilda frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.
Verðbólga mælist nú 4,2 prósent og hefur ekki verið minni í fjögur ár. Lækkun verðbólgu nú má rekja til efnahags- og fjármálaákvarðana stjórnanna undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Nú reynir á hvort stjórn Kristrúnar geti viðhaldið hjöðnunarstefnunni eða verðbólga vaxi að nýju vegna kjarasamninga við kennara sem njóta blessunar ríkisstjórnarinnar.