21.10.2020 10:15

Dagur B. óttast reikningsskil

Sérhagsmunagæsla á kostnað borgarbúa birtist þegar borgarfulltrúi Viðreisnar á forsetastóli borgarstjórnar brýtur á lýðræðislegum rétti borgarstjórnarflokks til að ráða fulltrúa sínum í nefnd.

Undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og meirihluta Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og VG er allt gert til þess að þagga niður í gagnrýnisröddum. Þegar borgarstjóri er hvattur til að taka þátt í gönguferð um miðborgina til að sjá með eigin augum auðu húsakynnin þar sem áður var atvinnurekstur flissar hann og segist ekki geta gengið með manni sem búi hluta ársins á Spáni og klappliðar taka undir með Degi B., meira að segja þeir sem búa í London og taka samt þátt í að veita bókmenntaviðurkenningu í nafni Reykjavíkurborgar.

Að kvöldi þriðjudags 20. október beitti Pawel Bartozek, forseti borgarstjórnar, dagskrárvaldi sínu í borgarstjórn til að hindra að Einar S. Hálfdánarson, löggiltur endurskoðandi, tæki að nýju sæti í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Ekki nóg með það heldur greip Dagur B. til þess alkunna ráðs meirihlutans að ófrægja Einar á fundi borgarstjórnar.

2682DE636E49065FB26B2825AFE0936EE83121EE4B1E9D5507D6BE5A19FA0E80_713x0Borgarstjórn á fundi.

Einar S. Hálfdánarson sagði sig úr endurskoðunarnefndinni fyrr á árinu vegna gagnrýni sem hann hafði uppi á reikningsskilaaðferðir Reykjavíkurborgar. Á dögunum kom hins vegar út álit reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga þar sem fallist var á gagnrýni Einars og úrskurðað að framsetning samstæðuársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 stæðist ekki lög. Taldi Sjálfstæðisflokkurinn eðlilegt að Einar settist nú að nýju í endurskoðunarnefndina, sem kemur saman í vikunni, til að fylgja þeim málstað eftir sem talinn er réttur að mati reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga.

Í færslu á Facebook að kvöldi þriðjudags 20. október segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins:

„Ég get staðfest að úrskurður í uppgjörsreglum Félagsbústaða liggur fyrir

Mér barst úrskurðurinn í síðustu viku ásamt Einari S. Hálfdánarsyni, löggiltum endurskoðanda, enda sendi ég sem borgarfulltrúi málið til nefndarinnar og Einar studdi það með innsendum frekari rökstuðningi. Nú hefur nefndin úrskurðað Reykjavíkurborg í óhag hvað varðar uppgjörsreglur hennar.

Þegar þetta er ljóst sækist Einar að sjálfsögðu á ný eftir sæti í endurskoðunarnefnd borgarinnar til að fylgja úrskurðinum eftir í reikningsskilum Reykjavíkur og samstæðunnar allrar – því hafnaði Pawel Bartozek, forseti borgarstjórnar á fundi í kvöld og hafði Dagur B. Eggertsson upp mjög óviðeigandi ummæli um Einar sem jaðra við meiðyrði.“

Fjármál borgarinnar og uppgjörsreglurnar sem Dagur B. og félagar vilja fylgja gagnrýnislaust eru aumasti bletturinn á meirihlutanum eins og ofríkið á borgarstjórnarfundinum gegn Einari S. Hálfdánarsyni sýndi. Að borgarfulltrúi Viðreisnar á forsetastóli borgarstjórnar skuli taka þátt í þeim ljóta leik að brjóta á lýðræðislegum rétti borgarstjórnarflokks að ráða fulltrúa sínum í nefnd sýnir aðeins hve Viðreisn er djúpt sokkin í sérhagsmunagæslu á kostnað borgarbúa – eru þó aðeins rúm tvö ár liðin af kjörtímabilinu. Fjármálaóstjórnin verður að fá að blómstra annars lifir meirihlutasamstarfið ekki.