27.1.2022 10:25

Dagur B. og Sundabraut

Í ár eru 20 ár frá því að Dagur B. Eggertsson settist í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann hefur í um 16 ár þess tíma setið í meirihluta. Allan þennan tíma hefur Sundabraut verið í biðstöðu.

Þeir eru kampakátir á gamalli Sundabrautarmynd Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra þegar kynnt er ný skýrsla um „félagsfæðilega greiningu“ á hagkvæmni þess að leggja Sundabraut.

Niðurstaða skýrslunnar er „að í heild nemi þjóðhagslegur ábati 186-236 milljörðum króna, eftir útfærslu Sundabrautar með brú eða göngum“. Síðan segir í frétt Morgunblaðsins um þetta í dag, 27. janúar, að næstu skref séu að hefja undirbúning á umhverfismati, víðtæku samráðsferli og nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi en miðað sé við að Sundabraut verði opnuð árið 2031.

Í ár eru 20 ár frá því að Dagur B. Eggertsson settist í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann hefur í um 16 ár þess tíma setið í meirihluta. Allan þennan tíma hefur Sundabraut verið í biðstöðu.

1285782_1643278848562Dagur B. Eggertsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Myndin er tekin 6. júlí 2021 þegar þeir undirrituðu yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar (mynd: mbl.is).

Nú er boðað að fyrir dyrum standi að ráðast í Sundabraut þar sem mestur ábati felist hvort tveggja í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu kunni að minnka um 150 þúsund km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar.

Fari menn 20 ár aftur í tímann og kynni sér umræður um Sundabraut þá sjá þeir að þá stóð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri R-listans og pólitísk guðmóðir Dags B., í svipuðum sporum og borgarstjórinn gerir nú og boðaði að Sundabraut væri handan við brúna eða göngin. R-listinn sagði að aðeins ætti eftir að ákveða hvaða leið yrði farin yfir Elliðavoginn. Þá eins og nú átti að stíga skipulagsskref með umhverfismati og öllu því sem nefnt er að gera þurfi áður en lagning brautarinnar kemst á beinu brautina.

Að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, verði þátttakandi í kosningabrellu borgarstjóra sem í 20 ár hefur staðið í vegi fyrir að lagning Sundabrautar hefjist er í anda slagorðsins um að líklega sé bara best að veðja á Framsóknarflokkinn, hann sé til í hvað sem er.

Í fyrrgreindi frétt Morgunblaðsins segir, að brúarlausn yfir voginn hafi það „fram yfir jarðgöngin að um hana getur farið umferð gangandi og hjólandi en það verður ekki framkvæmanlegt verði jarðgangalausnin valin“.

Fyrir 20 árum ræddu menn í Samfylkingunni háfleygum orðum um gildi hábrúar yfir Elliðavoginn en lögðu hana síðan umræðulaust til hliðar eins og Sundabrautina almennt þar til allt í einu núna þegar Sundabrautin verður samningsatriði að kröfu ríkisins við gerð samgöngusáttmála um höfuðborgarsvæðið og Dagur B. sér tilefni til auglýsingamennsku.

Þegar Dagur B. Eggertsson lenti í öngstræti vegna ráðstöfunar hans á N1-bensínstöðvarlóðinni við Ægisíðu svaraði hann að menn ættu ekki að taka mark á Morgunblaðinu í aðdraganda kosninganna í vor.

Ástæða er til að blaðamenn Morgunblaðsins gæti sín á skrumi borgarstjóra. Fréttin um Dag B. og Sundabraut handan við brúna eða göngin er ekki ný – hún er 20 ára gömul. Hvernig væri að reikna kostnað þjóðarbúsins af aðgerðaleysi Dags B. vegna Sundabrautar undanfarin 20 ár?