2.12.2023 10:32

Dagur B. og Dóra Björt ósammála

Í fréttaviðtali mátti skilja Dóru Björt á þann veg að ummæli Dags B. um að skipulagsvaldið dygði til að meirihluti borgarstjórnar næði markmiðum sínum væru röng.

Hér var mánudaginn 27. nóvember vakin athygli á undrun Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, yfir kúvendingu á ákvörðun sem hann stóð að sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar árið 2018 um að hafna gistileyfum fyrir 38 íbúðir við Bríetartún 9-11 í Reykjavík.

Í pistlinum hér var sagt að það væri efni fyrir rannsóknarblaðamann að komast að því hvernig í ósköpunum hefði tekist að breyta samþykkt í ráði borgarinnar þar sem Hjálmar Sveinsson sæti án þess að hann vissi af breytingunni. Þá var spurt: „Var farið á bak við borgarfulltrúann af ásettu ráði eða sinnir hann ekki starfi sínu af nægilegri alúð?“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri upplýsti á mbl.is miðvikudaginn 29. nóvember að veiting gistileyfisins þrátt fyrir höfnun Hjálmars hefði verið hluti „af lærdómsferli borgarinnar“.

Orðið „lærdómsferli“ notar borgarstjóri þegar hann lýsir því að undir formennsku Hjálmars Sveinssonar framdi umhverfis- og skipulagsráð lögbrot þegar það ákvað að veita ekki gistileyfið. Höfnun ráðsins var kærð og borgin tapaði kærumálinu. Var það ekki í fyrsta sinn í stjórnartíð Dags B. sem kærunefnd úrskurðaði að borgaryfirvöld hefðu staðið rangt að stjórnsýslulegri ákvörðun.

Það er með miklum ólíkindum að nú, árið 2023, segist Hjálmar Sveinsson fyrst frétta af niðurstöðu kærumálsins og afleiðingum þess. Hafi borgarfulltrúinn verið leyndur þessari niðurstöðu sýnir það alvarlega brotalöm í yfirstjórn borgarinnar. Hafi Hjálmar sett undrun sína á svið til að blekkja blaðamann Morgunblaðsins og lesendur þess sýnir það mikla bíræfni. Dagur B. Eggertsson treysti sér meira að segja ekki til að taka þátt í þeim blekkingarleik.

Á mbl.is segir Dagur B. að borgin hafi fallið á „tækniatriði“. Í seinni tíma deiliskipulagsáætlun hafi borgaryfirvöld hins vegar lagt sig fram um „að taka það bara ofboðslega skýrt fram þar sem við viljum ekki að það sé leiga til ferðamanna og skammtímaleiga“. Borgin hafi þess vegna unnið mál gegn verktökum vegna nýtingar húsa við Hafnartorg.

1070650_1701513082944Dagur B. Eggertsson og Dóra Björt Guðjónsdóttir á fundi borgarastjórnar Reykjavíkur.

Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir er núverandi formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar. Fréttamenn ríkisútvarpsins ræddu þessi mál við hana í vikunni, meðal annars í Kastljósi. Málflutningur hennar þar var þess eðlis að fyrir almennan hlustanda var ógjörningur að fá botn í hann.

Í fréttaviðtali mátti skilja Dóru Björt á þann veg að ummæli Dags B. um að skipulagsvaldið dygði til að meirihluti borgarstjórnar næði markmiðum sínum væru röng. Dóra Björt sagði að orðið hefði „ákveðinn forsendubrestur“ með rýmkun reglna í vinnu borgaryfirvalda. Þau væru í raun ráðalaus.

Hún sagði stöðuna þannig að það væri „alls konar gert sem er ekkert í boði að gera“. Það vantaði „eftirlit með óleyfisgistingu og það ætti auðvitað að vera í höndum lögreglu og sýslumanns“.

Stjórnleysið er sem sagt algjört og píratinn treystir á lögregluna – eins og flokkssystirin sem var illa leikin af dyravörðum.