Dagur B. í takt við Hvíta húsið
Í um það bil viku hafa menn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu vonað að hætt yrði að tala um ósæmileg orð sem Kelly Sadler, starfsmaður í húsinu, lét falla á innanhússfundi í garð repúblíkanans og öldungadeildarþingmannsins Johns McCains. Hann er dauðvona vegna heilaæxlis. Sadler neitar að biðjast opinberlega afsökunar á að hafa sagt að McCain „væri hvort sem er að deyja“.
Ummælin bar hátt í umræðuþáttum í sjónvarpi um helgina og lýstu nokkrir þingmenn repúblíkana undrun sinni yfir að ekki hefði borist opinber afsökun frá Hvíta húsinu. Talsmaður forsetans sagði þess í stað að tekið hefði verið á málinu „innan dyra“ og ekki væri meira um það að segja.
Kelly Sadler segir að hún hafi sagt þetta í hálfkæringi. Vinur og flokksbróðir McCains, öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham, krafðist þess í sjónvarpsviðtali að einhver í Hvíta húsinu fordæmdi ummælin opinberlega. Hefði þetta átt að vera brandari hefði hann verið ömurlegur.
Hvíta húsið í Washington.
Í Morgunblaðinu í dag (16. maí) birtist grein eftir Magnús Erlendsson sem kynnir sig sem nánasta ættingja alzheimer-sjúklings. Hann víkur að því að Elsa Yeoman, borgarfulltrúi Besta flokksins og síðar Bjartrar framtíðar, hafi endurtekið spurt Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að því hvort hann væri með alzheimer-sjúkdóminn. Með þessu hafi Elsa „ekki aðeins orðið sjálfri sér til ævarandi skammar, heldur veitt mörgum sjúkum djúp svöðusár“.
Það sé með ólíkindum, segir Magnús, að stjórnmálakona skuli spyrja pólitískan andstæðing sinn hvort hann sé haldinn þessum skelfilega sjúkdómi.
Þá segir Magnús Erlendsson:
„En téð Elsa Yeoman á bandamann, sjálfan borgarstjórann og lækninn Dag B. Eggertsson. Eða hvað skyldi Dagur hafa að segja um þetta í sömu frétt. Jú, orðrétt segir hann „Allir borgarfulltrúar ættu nú að þekkja húmor Elsu Yeoman, sem getur verið svartur og allskonar“. Svartur húmor. Það var allt sem borgarstjóranum lá á hjarta í þessu máli!
Geta tvö hjörtu vinstri borgarfulltrúa slegið öllu taktfastar?“
Svarið við spurningu Magnúsar liggur í augum uppi og einnig hitt að Dagur B. er í takt við þá í Hvíta húsinu sem sjá ekki ástæðu til að biðjast opinberlega afsökunar fyrir hönd skjólstæðinga sinna vegna ósæmilegra ummæla þeirra.