18.8.2022 10:07

Dagur B. í skammarkrókinn

Þetta er erfiður og viðkvæmur pólitískur tímapunktur fyrir Dag B. Eggertsson, sem var líklegasti keppinautur Kristrúnar.

Samfylkingin heldur landsfund 28. og 29. október 2022. Þar hverfur Logi Einarsson úr sæti formanns flokksins.

Vilji flokksmenn allsherjaratkvæðagreiðslu um eftirmann Loga verður að koma fram krafa um það frá að minnsta kosti 150 flokksmönnum eftir tæpar fjórar vikur. Í reglum flokksins er mælt fyrir um framboðsfrest og annað vegna slíkrar atkvæðagreiðslu. Komi ekki fram nein ósk um allsherjaratkvæðagreiðslu skulu framboð berast framkvæmdastjórn flokksins skriflega eigi síðar en einni viku fyrir upphaf landsfundar. Kosning skal fara fram þótt aðeins einn hafi gefið kost á sér.

Nokkur rúmur tími til framboðs er því enn til stefnu fyrir áhugamenn um formennsku í Samfylkingunni. Þrátt fyrir það birtist frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag, 18. ágúst, þar sem segir frá því að Kristrún Frostadóttir, alþingismaður Samfylkingar, hyggist efna til fundar með stuðningsfólki sínu föstudaginn 19. ágúst. Talið sé að þar kynni hún formannsframboð sitt. Kristrún svaraði fyrirspurn blaðsins á þennan veg: „Ég get staðfest að það kemur tilkynning á föstudagsmorgun um boð á fund.“

1359936Dagur B. Egggertsson borgarstjóri sást ekki á myndum með hústökumólmælendum í ráðhúsinu að morgni fimmtudags 18. ágúst, afmælisdegi Reykjavíkurborgar, Framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson staðgengill er næsta umkomulaus meðal barnanna þegar hann gengur á borgarráðsfundinn til að styðja Dag B. (mynd: mbl.is).

Þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur varað fólk við að trúa Morgunblaðinu þegar dregur að kosningum birtist í dag forsíðufrétt í Fréttablaðinu um að hann sé ekki í formannsframboði en útiloki ekki þátttöku í landsmálunum með þingmennsku síðar. Borgarstjóri ræðir málið af alkunnri hógværð og segir:

„Ég hef auðvitað skynjað mikinn stuðning. Fólk hefur kallað eftir nýrri ríkisstjórn sem yrði mynduð frá vinstri yfir á miðjuna svipað og í Reykjavík. En ég er að hefja nýtt kjörtímabil í borginni og á ekki sæti á þingi. Þess vegna var langsótt að ég byði mig fram til formennsku í flokknum.“

Hann segir hlutverk sitt sé „frekar nú að styðja við þá sem veljast til forystu“. Hann segir skipta „mjög miklu máli að Samfylkingin sæki fyrri styrk sinn“.

Þegar Dagur B. er spurður hvort hann ætli í þingframboð fyrir kjörtímabilið sem hefst 2025 svarar hann: „Ég hvorki útiloka það né er ég með áætlanir um slíkt langt fram í tímann.“ Mikilvægt sé að Samfylkingin komist í ríkisstjórn.

Athyglisvert er að Dagur B. telur aðra betur til þess fallna en hann sjálfan að til að tryggja að Samfylkingin „sæki fyrri styrk sinn“ og ávinni sér nægilegt traust og fylgi á næstu misserum til að flokkurinn komist í ríkisstjórn eftir kosningar 2025. Hann útilokar þó ekki að hoppa um borð í framboðsvagninn eygi hann líkur á góðum árangri í kosningum þá.

Hitt er ekki síður athyglisvert að Kristrún Frostadóttir skuli einmitt velja dagana núna til að boða til stuðningsmannafundar og beina athygli að formannskjöri í Samfylkingunni. Þetta er erfiður og viðkvæmur pólitískur tímapunktur fyrir Dag B. Eggertsson, sem var líklegasti keppinautur hennar.

Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, lýsir vanda Dags B. með þessum orðum í Morgunblaðinu í dag:

„Loforð borgarstjóra um leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi reyndust innantóm lygi um hábjartan dag.“