Dagur B. hikar við framboð
Óljóst er nú hvort Dagur B. ætlar að bjóða sig fram að nýju í vor. Fréttir eru um stirðleika í samstarfi hans og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa og varaformanns Samfylkingarinnar.
Í Kastljósi ríkissjónvarpsins miðvikudaginn 8. desember ræddu þau borgarmálin Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem skipaði annað sæti D-listans í kosningunum 2018. Dagur B. og Samfylkingin fór illa út úr þeim kosningum en myndaði að þeim loknum meirihluta með Viðreisn, Pírötum og VG.
Í Kastljósinu rifjaði Hildur upp að
vorið 2022 verða 20 ár liðin frá því að Dagur B. var kjörinn í borgarstjórn.
Hann var þá utan flokka, handvalinn af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur,
borgarstjóra R-listans, sem farið hafði með stjórn borgarinnar frá 1994.
Hildir Björnsdóttir borgarfulltrúi (mbl.is).
Á kjörtímabilinu 2002 til 2006 sátu þrír borgarstjórar í umboði R-listans. Samstarfsfólk Ingibjargar Sólrúnar vildi að hún hætti þegar hún fór í þingframboð fyrir Samfylkinguna árið 2003. Þórólfur Árnason bar borgarstjórakeðjuna frá vori 2003 til 1. desember 2004 og síðan Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Samfylkingu fram að kosningum 2006. Dagur B. vildi verða borgarstjóri 2004 og var á báðum áttum hvað hann ætti að gera fyrir kosningar 2006 en Ingibjörg Sólrún, þáv. formaður Samfylkingarinnar, fékk hann í prófkjör fyrir Samfylkinguna þar sem hann sigraði.
Frá 2006 hafa þessi verið borgarstjórar:
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson frá 13. júní 2006 til 16. október 2007.
Dagur B. Eggertsson frá 16. október 2007 til 24. janúar 2008.
Ólafur F. Magnússon frá 24. janúar 2008 til 21. ágúst 2008.
Hanna Birna Kristjánsdóttir frá 21. ágúst 2008 til 15. júní 2010.
Jón Gnarr frá 15. júní 2010. til 16. júní 2014.
Dagur B. Eggertsson frá 16. júní 2014.
Dagur B. var formaður borgarráðs þegar Jón Gnarr var borgarstjóri.
Óljóst er nú hvort Dagur B. ætlar að bjóða sig fram að nýju í vor. Fréttir eru um stirðleika í samstarfi hans og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa og varaformanns Samfylkingarinnar.
Á vefsíðu Reykjavíkurborgar birtist 30. nóvember frétt um að Dagur B. tæki þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Mexíkó dagana 30. nóvember til 3. desember og hleypti af stokkunum forvarnarverkefni fyrir börn og unglinga sem væri reist á fyrirmynd forvarna Reykjavíkur og Íslands. Heiðu Björg þótti fram hjá sér gengið sem formanni velferðarráðs borgarinnar, stjórnmálamanninum sem bæri hita og þunga þessa verkefnis. Niðurstaðan var að þau fóru bæði en Dagur B. flutti ræðuna.
Dagur B. telur sig ef til vill ekki hafa nægan styrk innan Samfylkingarinnar til að fara þar í prófkjör gegn varaformanni flokksins.
Hvað sem veldur hiki Dags B. tók Hildur Björnsdóttir afdráttarlaust af skarið um að hún byði sig fram í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í prófkjöri sem talið er að verði undir lok febrúar 2022. Núverandi oddviti flokksins Eyþór Arnalds segist einnig ætla að gefa kost á sér. Það fara því í hönd líflegir tímar meðal sjálfstæðismanna í borginni á nýtu ári.