7.9.2023 10:06

Dagur B. fjármálaráðherra

Þótt Kristrún flokksformaður lýsi sjálfri sér sem framúrskarandi fjármálaráðherra stefnir hún á forsætisráðherrastólinn. 

Þegar Helga Vala Helgadóttir sagðist ætla að hætta sem þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík birtust spádómar um að Dagur B. Eggertsson yrði í framboði til þings í hennar stað.

Með því yrði leitað til manns með reynslu af fjármálastjórn Reykjavíkurborgar og forystu í Samfylkingunni. Dagur B. var varaformaður hennar árin 2009 til 2013 þegar Jóhanna Sigurðardóttir var formaður og forsætisráðherra.

Vegna stefnu Kristrúnar Frostadóttur, flokksformanns Samfylkingarinnar, gegn því sem Jóhanna setti fremst á sínum tíma: ESB-aðild og nýja stjórnarskrá er það mat ráðgjafa hennar að hún þurfi að ýta undir framboð og framgang manna innan flokksins sem tengja hann við fortíðina og árétta samfellu í starfi hans hvað sem stefnumálum líður.

1349459Kristrún Frostadóttir og Dagur B. Eggertsson (samsett mynd: mbl.is).

Dagur B. tengir nútíð og fortíð í flokksforystunni en auk hans hafa verið nefndir til sögunnar gamlir þingmenn eins og Björgvin G. Sigurðsson í Suðurkjördæmi. Hann sat á þingi og var viðskipta- og bankamálaráðherra í stjórninni 2007 til 2009. Áhöld voru um hvort ætti að ákæra hann og sækja fyrir landsdómi en vinir hans í Samfylkingunni máttu ekki heyra á það minnst. Hann á enn öfluga hauka í horni innan flokksins.

Einnig er því hreyft að Guðmundur Árni Stefánsson sem sat á þingi fyrir Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna frá 1993 til 2005 verði í framboði í SV-kjördæmi. Guðmundur Árni lyfti fylgi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningunum 2022 og er núverandi varaformaður flokksins. Færi Guðmundur Árni í prófkjör vegna þingframboðs ýtti hann örugglega Þórunni Sveinbjarnardóttur og Guðmundi Andra Thorssyni til hliðar.

Sé litið fram hjá öllum vangaveltum af þessu tagi um innri málefni Samfylkingarinnar má færa efnisleg rök fyrir því að Dagur B. sækist eftir þingmennsku.

Í krafti skoðanakannanna gerir Samfylkingin sér vonir um forystu í næstu ríkisstjórn. Þótt Kristrún flokksformaður lýsi sjálfri sér sem framúrskarandi fjármálaráðherra stefnir hún á forsætisráðherrastólinn. Hún gerir hins vegar jafnframt kröfu um að Samfylkingin fái fjármálaráðuneytið í sinn hlut.

Í grein í Morgunblaðinu í dag lýsir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, andstöðu við að haldið verði áfram á sömu braut með óskaverkefni Dags B. sem borgarstjóra, borgarlínuna. Allt bendi til a. m. k. 300 milljarða kostnaði við þessi verkefni miðað við 120 milljarða við undirritun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Segir Bjarni að í stórum verkefnum sem smáum sé gott að byrja á því að svara spurningunni: Hvaðan eiga peningarnir að koma? Ella sé hætta á að vandinn vaxi þar til maður sé týndur djúpt inni í miðjum skógi ófjármagnaðra hugmynda og rati ekki aftur heim.

Dagur B. fylgir gjörólíkri stefnu við opinbera fjármálastjórn og til að vinna að framgangi borgarlínu og annarra gæluverkefna sem hann telur að skattgreiðendur eigi að greiða í gegnum ríkissjóð mun hann krefjast þess að verða fjármálaráðherra við hlið Kristrúnar forsætisráðherra.