11.4.2018 12:20

Dagur B. og félagar í Trump-stellingar

Skoðanakannanir sýna minnkandi fylgi við Dag B. og því er slegið upp í fjölmiðlum að meirihluti hans í Reykjavík sé fallinn.  Borgarstjórinn og félagar hans setja sig Trump-stellingar gagnvart fjölmiðlum og öðrum andstæðingum sínum.

Skoðanakannanir sýna minnkandi fylgi við Dag B. og því er slegið upp í fjölmiðlum að meirihluti hans í Reykjavík sé fallinn.  Borgarstjórinn og félagar hans setja sig Trump-stellingar gagnvart fjölmiðlum og öðrum andstæðingum sínum.

Athygli beinist nú mjög að Mark Zuckerberg, forstjóra og stofnanda Facebook, sem sat í fimm klukkustundir og svaraði bandarískum þingmönnum í gær vegna ásakana um að Facebook hefði verið og væri misnotuð í pólitískum tilgangi. Zuckerberg sagði að hann hefði litið á sig sem hönnuð nettóls til að auðvelda fólki samskipti sín á milli. Mistök sín væru að hafa ekki meira eftirlit með efninu sem menn miðluðu meðal annars til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Honum var til dæmis bent á hatursáróðurinn gegn flóttafólkinu sem farið hefur frá Burma (Myanmar) til Bangladesh. Formælingarnar og hótanirnar væru utan alls velsæmis. Sagði Zuckerberg að vissulega yrði að taka á þessu og í því skyni hefðu tugir manna sem kynnu tungumál fólksins verið ráðnir til að miðla upplýsingum um efnið til þeirra sem sinna efniseftirliti, ritskoðun, í höfuðstöðvum Facebook.

Mack Zuckerberg situr fyrir svörum í Bandaríkjaþingi.

Eftir því sem hallar meira undan fæti hjá Degi B. og félögum leggjast þeir lægra í áróðri sínum og persónulegum árásum á Eyþór Arnalds, efsta mann á D-listanum, á Facebook. Fyrir efninu er Árni Tryggvason skráður en Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og fleiri sjá um að dreifa því.

Þessi skrif eru á þann veg að í Bandaríkjunum hefðu þau líklega borið á góma á fundum þingmannanna með Zuckerberg með gagnrýni á  þessar lygar og hálfsannleika. Ávirðingarnar á Eyþór t.d. vegna gjaldþrots OZ og um rekstur Becromal eru rangar. Þá er hann sagður hafa verið „einn forsvarsmanna“ búgarðabyggðar í Árborg sem var skipulögð af vinstri meirihluta þar áður en Eyþór flutti þangað. Fullyrt er án rökstuðnings að orkufyrirtæki sem ætlaði að virkja við Hagavatn hafi hagrætt „upplýsingum til að koma virkjuninni í nýtingarflokk“, svo að dæmi séu nefnd.

Guðjón Friðriksson dreifir þessu efni með þeim orðum að hann furði sig á „hvað tekið er á borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna með miklum silkihönskum“.  Sagnfræðingurinn vill með öðrum orðum meira af óhróðri um Eyþór á Facebook í von um að þá vænkist hagur Dags B. Skyldi enginn kunna íslensku í ritskoðunardeild Facebook?