9.8.2017 9:51

Dagur B. með málningarrúlluna

Reykvíkingar komast ekki í hátíðaskap nema sjónvarps- og ljósmyndir birtist af borgarstjóranum í aðdraganda hátíðarhaldanna.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sást við anddyri ráðhússins í gær, þriðjudaginn 8. ágúst, með hópi fólks við að mála stéttina fyrir framan húsið í litum hinsegin daga. Árlega tekur borgarstjóri málningarrúllu sér í hönd af þessu tilefni. Hann sást meðal annars eitt sinn á stéttinni fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík með rúlluskaftið í hendinni.

Reykvíkingar komast ekki í hátíðaskap nema sjónvarps- og ljósmyndir birtist af borgarstjóranum í aðdraganda hátíðarhaldanna. Borgarstjóri tekur meðal annars að sér að fella jólatré í Heiðmörk til að minna á komu hátíðar ljóss og friðar.

Sé ekki hátíð í vændum hverfur borgarstjóri sjónum eins og best sannaðist í sumar þegar mikið mengunarslys varð í borginni og enginn sá ástæðu til að láta borgarstjórann vita af því. Innan borgarkerfisins átta menn sig á að ekki eigi að raska hátíðaskapi borgarstjórans. Þegar hann loksins birtist og lét svo lítið að ræða mengunarslysið og óhönduglega meðferð þess innan borgarkerfisins ræddi Dagur B. um það eins og áhorfandi en ekki ábyrgðaraðili. Hann komst upp með það í fréttum ljósvakamiðlanna – hvað annað?

Nú dregur að ákvörðunum um framboð vegna sveitarstjórnakosninga vorið 2018. Stjórnmálastarf komandi mánaða mótast af því. Á sínum tíma bauð Dagur B. Eggertsson sig fram á vegum R-listans sem sérstakur skjólstæðingur og stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, síðar formanns Samfylkingarinnar. Hann var þá utan flokka, varð síðar varaformaður Samfylkingarinnar en gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Er hann kannski utan flokka núna? Tákngervingur þess að Samfylkingin hefur liðið undir lok sem stjórnmálaafl? Eða ætlar hann að blása lífi í Samfylkinguna með framboði undir merkjum hennar?

Þetta eru eðlilegar spurningar við upphaf sveitarstjórnaveturs í stjórnmálunum. Dagur B. er hins vegar ekki spurður að þeim. Þær þykja líklega ekki nægilega hátíðlegar.

Innan borgarstjórnarflokks meirihlutans fer Dagur B. sínu fram án þess að spyrja kóng eða prest en lætur einstaka stuðningsmenn sína birtast sem utangátta sé leitað álits þeirra. 

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata og formaður sérstaks ráðs um opna og vandaða stjórnarhætti sem var sérhannað að þörfum hans, er í þessari stöðu í dag þegar Morgunblaðið spyr hann um fyrirhugaða gjaldtöku á útsýnispöllum Perlunna. Borgarstjóri hefur ekki sagt honum neitt um málið.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, ritar stutta grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann lýsir furðulegum starfsháttum Dags B. við töku ákvarðana um skipan í æðstu embætti innan borgarkerfisins. Leyndarhyggja og pukur ráða þar ferð.

Eins og oft áður vegna borgarstjórnakosninga hafa Framsóknamenn dregið fram hnífavestin til að verjast bakstungunum. 

Spurningarnar verða sífellt hærri um hvernig Sjálfstæðismenn í Reykjavík ætli að haga sókn sinni gegn þeim sem nú hafa meirihluta í borginni undir forystu Dags B. Eggertssonar.