21.7.2017 10:48

Dagur B. áhorfandi að mengunarhneyksli

Nú er ljóst að ekkert var ofsagt hér á þessum stað um fúskið sem einkenndi viðbrögð Veitna, heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og yfirstjórnar borgarinnar vegna mengunarhneykslisins.

Nú er ljóst að ekkert var ofsagt hér á þessum stað um fúskið sem einkenndi viðbrögð Veitna, heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og yfirstjórnar borgarinnar vegna mengunarhneykslisins sem fréttastofa ríkisútvarpsins skýrði fyrst frá 5. júlí 2017. 

Ætlun allra aðila sem að málinu komu og vissu um það var að þegja um mengunina í von um að það væri alveg að takast að gera við bilunina sem olli því að 750 sekúndulítrar af skolpi runnu óhreinsaðir í sjóinn við strendur Reykjavíkur sem borgarstjórn skilgreinir sem útivistarsvæði að sögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem greip til þess ráðs í upphafi umræðna um hneykslið að hann vissi bara ekkert um það.

Borgarráð kom saman fimmtudaginn 20. júlí og fékk skýrslu um málið en viðgerð á skolphreinsikerfinu er nú lokið að sögn forráðamanna Veitna og borgarkerfisins. Skolpdælustöð við Faxaskjól var biluð í rúman mánuð - frá 12. júní til 18. júlí og á meðan runnu um milljón rúmmetrar af óhreinsuðu skólpi í fjöruna við dælustöðina.

Birt var viðtal við Dag B. í fréttatíma sjónvarpsins fimmtudaginn 20. júlí og lengri útgáfu þess má sjá á ruv.is. Undrun vekur hvernig sá sem spyr borgarstjóra gefur honum færi á að tala um þetta reginhneyksli eins og hann sé áhorfandi eða fréttaskýrandi. Á ruv.is hefst endursögn á samtalinu á þessum orðum:

„Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að allir séu sammála um að það hefði mátt segja frá skólplekanum við Faxaskjól fyrr. Innri endurskoðun borgarinnar hefur verið falið að fara yfir málið. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur viðurkennir að æskilegt hefði verið að taka fleiri sýni við dælustöðina og tilkynna niðurstöður þeirra.“

Þá segir Dagur B.:

„[A]llir aðilar eru sammála um að það hefði mátt standa betur að því að miðla upplýsingum - segja frá þessum málum fyrr. Og það var líka mikil samstaða innan borgarráðs um að læra af þessu og að tryggja að svona hlutir komi ekki fyrir aftur.“

Dagur B. er aldrei spurður um hans hlut eða ábyrgð í málinu heldur fer fréttamaðurinn í kringum þann lykilþátt málsins eins og köttur í kringum heitan graut. Dagur B. talar eins og allir séu sammála um allt varðandi málið innan borgarráðs. Ekki berast neinar fréttir af að minnihlutinn hafi bókað gagnrýni á hvernig borgarstjórinn sjálfur hélt á málinu – eða hélt ekki á því, réttara sagt því að hann sást hvorki né heyrðist.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna, setti á Facebook-síðu sína eftir borgarráðsfundinn í gær:

 „Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar borgarfulltrúa, dags. 11. júlí 2017, þar sem hann óskar eftir að fram fari stjórnsýsluúttekt vegna bilunar skólphreinsistöðvar við Faxaskjól. R17070090

Vísað til meðferðar innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

Fylgigögn:

Beiðni borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stjórnsýsluúttekt vegna bilunar í skólphreinsistöð við Faxaskjól.“

Frá því að Jón Gnarr varð borgarstjóri og nú Dagur B. hafa aldrei setið menn í því embætti sem líta á sig utan eða ofan við það sem gerist á þeirra vakt í borgarstjórastólnum. Að aðrir innan borgarstjórnar líði þetta er óskiljanlegt.