Dagskrárstjóri hafnar siðareglum
Dagskrárstjórinn skautar algjörlega fram hjá því viðmiði sem sett er í siðareglum RÚV sem útvarpsstjóri setti 13. júní 2022.
„Siðareglur þessar fela í sér viðmið um hátterni starfsfólks Ríkisútvarpsins,“ segir í upphafi siðareglna ríkisútvarpsins (RÚV) sem útvarpsstjóri setti 13. júní 2022. Tilgangur reglnanna er að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á starfsemi RÚV.
Lögum samkvæmt ber RÚV „að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi“.
Starfsfólk skal rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika. Þá ber því að forðast að kasta rýrð á RÚV eða skaða ímynd þess og traust með framkomu sinni.
Á þetta er minnst hér vegna fréttaþáttar á RÚV 3. janúar 2024 Þetta helst þar sem Þóra Tómasdóttir, blaðamaður á RÚV, ræddi um fjarveru Tómasar Guðbjartssonar læknis frá störfum á Landspítalanum. Hann fór í veikindaleyfi og í ljós hefur komið að mein hans er alvarlegra en upphaflega var ætlað.
Ólafur Hauksson, almannatengill og fyrrum blaðamaður, skrifaði um þátt Þóru á Facebook-hópinn Fjölmiðlanördar í liðinni viku og vegna þess sem þar stóð sagði ég í athugasemd: „Að svona vinnubrögð viðgangist átölulaust á fréttastofu ríkisútvarpsins sýnir að þar eru ekki nein fagleg viðmið í heiðri höfð.“ (Sunnudaginn 4. febrúar birti Ólafur ítarlega gagnrýni á framgöngu Þóru Tómasdóttur).
Vegna athugasemdar minnar sagði Fanney Birna Jónsdóttir, dagskrárstjóri rásar 1 hjá RÚV, við dv.is 4. febrúar, að umfjöllun Þóru hefði átt „erindi við almenning, hún hafi byggst á faglegum vinnubrögðum í samræmi við viðurkennd viðmið og rúmast innan þess frelsis sem fjölmiðlum er játað samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“
Í tilefni af þessum orðum dagskrárstjórans sagði Gunnar Ármannsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands, 5. janúar á blog.is að það væri ansi langt seilst þegar yfirmaður starfsmanns þyrfti „að teygja sig alla leið í stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu til að réttlæta umfjöllun starfsmannsins“. Taldi lögmaðurinn það benda til þess að viðkomandi hefði „vondan málstað að verja“ og vekti „enn fleiri spurningar en áður um fagleg vinnubrögð útvarps allra landsmanna“.
Undir þessi orð lögmannsins skal tekið. Dagskrárstjórinn skautar algjörlega fram hjá því viðmiði sem sett er í siðareglum RÚV og vitnað er til í upphafi þessa pistils. Með orðum sínum hafnar dagskrárstjórinn siðareglum útvarpsstjóra frá 13. júní 2022 um „viðmið um hátterni“ starfsfólks RÚV.
Hvað sem líður ómaklegri umfjöllun um Tómas Guðbjartsson lækni í RÚV er með öllu óviðunandi að hlustendur ríkisútvarpsins geti ekki treyst því að reglur þess sjálfs um framgöngu einstakra starfsmanna séu virtar. Vakna enn á ný spurningar um eftirlitsskyldu stjórnar þessa opinbera hlutafélags.
Þá starfar hlutafélagið á grundvelli samnings við menningarráðuneytið sem hlýtur að ganga eftir að umsamin viðmið séu í heiðri höfð. Siðareglur útvarpsstjóra eru þar til grundvallar.