11.10.2021 9:58

Dagar Kólumbusar og Leifs

Það veldur ekki jafnmiklum titringi að fagnað sé landgöngu Leifs og manna hans á Nýfundnalandi og haldið sé upp á Kólumbusardaginn.

Í dag, 11. október, er Kólumbusardagur – Columbus Day – haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum og víðar. Þess er minnst þennan dag að 12. október 1492 sté Kristófer Kólumbus á land í Ameríku sem sumir telja enn að hann hafi „fundið“. Árið 1937 var ákveðið að dagurinn yrði hátíðisdagur í Bandaríkjunum auk þess sem deginum hefur löngum verið fagnað víða í Ameríku.

Löngum efndu bílasalar og stórmarkaðir gjarnan til útsölu í tilefni dagsins. Nú herma fréttir frá Bandaríkjunum að kaupmenn forðist að tengja útsölur nafni Kólumbusar og æ víðar sé dagsins nú minnst sem frumbyggjadagsins, efnt sé til mótmæla gegn nýlenduánauðinni sem tengist nafni Kólumbusar. Kaupmenn vilji allra síst verða leiksoppar í átökum ólíkra skoðanahópa. Auk þess fækkar þeim sem fá frí frá vinnu þennan dag.

C8e12590a9e7e794a61ca873315dcbe5Bandaríkjaforseti minnist Leifs Eiríkssonar 9. október ár hvert með sérstakri yfirlýsingu. Bandaríkjaþing gaf 2. september 1964 með sameiginlegri yfirlýsingu beggja þingdeilda Bandaríkjaforseta heimild til að lýsa 9. október ár hvert „Leif Erikson Day“ til heiðurs Leifi Eiríkssyni, syni Íslands og barnabarni Noregs (e. son of Iceland and grandson of Norway) og til að fagna arfleifð norrænna Bandaríkjamanna (e. and to celebrate our Nordic-American heritage).

Í yfirlýsingu sem Joe Biden forseti ritaði undir af þessu tilefni árið 2021 segir að Leifur Eiríksson og hugdjörf áhöfn hans séu taldir fyrstu Evrópumennirnir til að komast að strönd Norður-Ameríku. Afrek þeirra hafi orðið mörgum kynslóðum norrænna Bandaríkjamanna (e. Nordic Americans) innblástur.

Þá er þess sérstaklega getið í yfirlýsingunni að 9. október 1825 hafi sex norskar fjölskyldur komið til New York-borgar í leit að frelsi og tækifærum. Þessi fyrsta skipulagða hópferð norskra innflytjenda til Bandaríkjanna hafi rutt brautina fyrir aðra Norðmenn en auk þess Dani, Finna, Íslendinga og Svía sem hafi tekið sér bólfestu við vötnin miklu og á sléttum í norðurhluta Bandaríkjanna og auk þess um landið allt. Þeir hafi lagt mikið af mörkum til bandarísks þjóðlífs, menningarlífs og atvinnulífs. Nú reki meira en 11 milljónir Bandaríkjamanna stoltir ættir sínar til Norðurlandanna.

Áréttað er að Bandaríkjamenn og Norðurlandaþjóðirnar sameinist um hollustu við lýðræði, frelsi, mannréttindi, réttarríkið, öryggi og velmegun. Þá séu Norðurlandaríkin í hópi traustustu hernaðarlegra bandamanna Bandaríkjanna og efnahagslegra samstarfsaðila. Norrænu þjóðirnar leggi Bandaríkjamönnum lið í glímunni við viðfangsefni líðandi stundar. Bandaríkjamenn meti mjög mikils viðgang þessarar vináttu.

Í tilefni Leifs Eiríkssonar-dagsins 2021 segir í bandaríska tímaritinu National Review að jafnvel nú á tímum valdi það ekki jafnmiklum titringi að fagnað sé landgöngu Leifs og manna hans á Nýfundnalandi og haldið sé upp á Kólumbusardaginn. Ástæðan sé meðal annars sú að Kólumbus sló eign Spánarkonungs á amerísku heimsálfuna en Leifur og félagar leituðu aðeins að landi til eigin búsetu og nýtingar.