Dæmi um hannaða frétt
Vegna þessara augljósu sanninda og orða Bjarna gaf fréttamaður ríkisútvarpsins sér að stjórnvöld ætluðu að halda „að sér höndum [vegna kjarasamninga] í ljósi þeirra útgjalda sem fyrirsjáanleg eru“.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, komst vel að orði þegar hún sagði mánudaginn 22. janúar að aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Grindvíkinga miðuðu að því að færa óvissu af eignatjóni og vegna framtíðar byggðar í Grindavík frá íbúunum sem yfirgefið hafa heimili sín og eignir yfir á ríkisvaldið.
Enginn veit enn með vissu hvað felst í þessari skuldbindingu. Allir vona að aftur verði búseta og blómlegt atvinnulíf í bæjarfélaginu. Óvissa verður hins vegar áfram og mikilvægt er að minnka áhyggjur vegna hennar sem best.
Það væri með öllu ábyrgðarlaust af ríkisstjórn og alþingi að láta eins og fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessarar ákvörðunar stjórnvalda hefðu ekki almenn áhrif á fjárhagslega getu ríkissjóðs. Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrv. fjármála- og efnahagsráðherra, benti á þetta augljósa samhengi hlutanna og þar með tilmæli til ríkisins um að grípa til millifærslna vegna kjarasamninga sem nú eru á döfinni.
Hér eru stjórnmálamenn að ræða um ráðstöfun á skattfé almennings og hvernig forgangsraða beri nýtingu þess. Hvort sem tekið verður lán eða leitað annarra úrræða til að tryggja greiðslugetu ríkissjóðs lendir reikningurinn að lokum á skattgreiðendum.
Vegna þessara augljósu sanninda og orða Bjarna gaf fréttamaður ríkisútvarpsins sér að stjórnvöld ætluðu að halda „að sér höndum [vegna kjarasamninga] í ljósi þeirra útgjalda sem fyrirsjáanleg eru“. Valdi hann Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, sem viðmælanda til að fá þá kenningu sína staðfesta.
Ragnar Þór hljóp upp til handa og fóta með stóryðum og fékk inni fyrir þau í fyrstu hádegisfrétt ríkisútvarpsins þriðjudaginn 23. janúar. Formaðurinn lauk máli sínu með því að segja að það væri bara „fyrirsláttur og mjög ógeðfellt og ósanngjarnt að nota stöðuna í Grindavík til þess að, hvað á ég að segja, vinna gegn þessum nauðsynlegu og stóru markmiðum sem við höfum sett okkur í þessum kjarasamningum“. Var stóryrðunum slegið upp á ruv.is eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Fréttamaðurinn gaf sér ranga forsendu og bjó til ágreining úr orðum Bjarna. Til hvers? Til að fá „frétt“? Til að sverta Bjarna eða koma illu af stað í kjaraviðræðunum? Til að setja lausn á vanda Grindvíkinga í sömu skúffu og kjaramálin eins og Ragnar Þór gerði?
Í Morgunblaðinu í dag er leitað álits verkalýðsforingja á orðum Bjarna Benediktssonar. Í fréttinni segir:
„Sólveig Anna [Jónsdóttir. formaður Eflingar] segir að þessi ummæli hafi ekki spillt fyrir samtalinu sem breiðfylkingin eigi við Samtök atvinnulífsins.“
Og einnig:
„Vilhjálmur [Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins] er ekki þeirrar skoðunar að ummæli Bjarna hafi verið olía á eldinn. „Við lítum svo á að ávinningur ríkissjóðs af því að þetta verkefni [gerð kjarasamninga] takist skili sér margfalt til baka.“
Hér skal áréttuð ábendingin um að gefi fréttamenn viðmælendum sínum rangar forsendur verður niðurstaðan röng og fréttin marklaus.