Corbyn sætir hörðu ámæli
Þegar þessi texti er lesinn beinist hugurinn að þeim hér á landi sem skipa má á bekk með Jeremy Corbyn vegna afstöðunnar til NATO og annarra alþjóðamála.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, er síður en svo óumdeildur þótt hann hafi náð tökum á flokki sínum og þar gæti stjörnudýrkunar í hans garð hjá ýmsum flokksmönnum. Nýlegar fréttir um að hann hafi verið í sambandi við njósnara kommúnistastjórnarinnar í Tékkólsóvakíu urðu til þess að laugardaginn 17. febrúar birtist þessi leiðari á vefsíðunni The Telegraph:
„Hvers vegna hitti Jeremy Corbyn Ján Sarkocy á níunda áratugnum? Var það vegna þess, sem sagt hefur verið frá í fréttum, að hann vildi vara hann við yfirvofandi aðgerðum bresku leyniþjónustunnar? Vissi hann að um njósnara á vegum kommúnista í Tékkóslóvakíu var að ræða? Stóð honum á sama? Corbyn kallar þetta allt „rógburð“ en Sarkocy telur að Corbyn hafi vitað nákvæmlega við hvern hann talaði og lýsing hans á leiðtoga Verkamannaflokksins er skaðleg: heiðarlegur en vitlaus.
Corbyn er vissulega ekki hæfur til að verða forsætisráðherra. Hann er ekki heldur hæfur til að vera leiðtogi Verkamannaflokksins – jafnvel þótt þar séu gerðar frekar litlar kröfur. Hvað þurfa flokksmenn að vita meira áður en þeir sparka honum?
Þeir vita nú þegar að hann fékk greitt fyrir að koma fram í íranskri sjónvarpsstöð, hann kallaði Hizbollah og Hamas „vini“, lýsti Falklandseyjastríðinu sem „samsæri Íhaldsmanna“, bauð dæmdum IRA-sprengjumönnum í þinghúsið, hafnaði því að Milosevic hefði gerst sekur um stríðsglæpi, sagði aftöku Osama bin Ladens án dóms og laga „sorglega“ og bar lof á Chavista-byltinguna í Venesúela. Corbyn hefur í of mörgum málum skipað sér á rangan stað til að fullyrðing um að hann hafi sest niður með tékkneskum njósnara veki undrun, hún virðist í samræmi við annað.
Þetta er algjörlega forkastanlegt. Hryllingi kommúnismans má ekki gleyma. Í Tékkóslóvakíu sat ein mesta kúgunarstjórnin handan járntjaldsins, þar voru lýðræðissinnar fangelsaðir. Flestir vinstrisinnar höfnuðu kommúnisma og fylktu liði með NATO gegn honum. Corbyn hefur á hinn bóginn lýst NATO sem „hættu fyrir heimsfrið“ – og allir kjósendur, einkum þeir yngri, verða að skilja hve heimskulegan og brjálæðislegan þetta í raun gerir hann.“
Þegar þessi texti er lesinn beinist hugurinn að þeim hér á landi sem skipa má á bekk með Jeremy Corbyn vegna afstöðunnar til NATO og annarra alþjóðamála.