7.11.2019 12:16

Corbyn í vanda vegna gyðingahaturs

Forseti ASÍ hallast á sveif með Jeremy Corbyn og félögum. Þeir tala einnig á þennan veg um Palestínumenn og samtök þeirra, vini sína. Leiðir það nú til klofnings í Verkamannaflokknum.

Tom Watson, varaleiðtogi Verkamannaflokksins, sagði óvænt af sér þingmennsku að kvöldi miðvikudags 6. nóvember. Er ástandinu innan flokksins lýst sem borgarastríði um brexit og vegna ádeilunnar á Corbyn og félaga hans fyrir gyðingahatur í flokknum. Fyrir nokkrum vikum reyndi hópur innan flokksforystunnar að hrekja Watson úr varaleiðtogasætinu. Þá hefur Watson sætt þungri gagnrýni fyrir að ganga erinda manns að nafni Carl Beech sem laug því að innan breska þingsins væri klíka barnaníðinga. Var það þeim mikill álitshnekkir sem trúðu manninum.

Í sömu andrá og Watson sagði af sér hvatti Ian Austin, fyrrverandi ráðherra Verkamannaflokksins og frambjóðandi í kosningunum, „alla heiðvirða, hefðbundna kjósendur“ til að styðja Boris Johnson á kjördag 12. desember. Hann sagði: „Jeremy Corbyn er algjörlega óhæfur til að leiða þjóðina“ og efnahagsstefna Verkamannaflokksins „verður þjóðinni til tjóns“.

Austin var ættleiddur af gyðingi sem flúði undan ofsóknum nazista. Þegar hann hvatti til stuðnings við Boris Johnson nefndi hann „gyðingahaturshneyklsið sem hefur eitrað Verkamannaflokkinn“.

Hann sagði einnig:

„Jeremy Corbyn er öfgamaður. Hann hefur látið líðast að öfgahyggja og kynþáttahatur eitrar Verkamannaflokkinn, hann studdi hryðjuverk, það er ekki unnt að treysta honum fyrir vörnum okkar og hann bregst alltaf réttum málstað.

Sá sem veitir landi okkar forystu verður að geta sagt að honum þyki vænt um Bretland og ég lít ekki á hann sem föðurlandsvin. Hann hefur tekið afstöðu með óvinum þjóðar okkar, hvort sem það er með því að styðja IRA [Írska lýðveldisherinn] eða með því að segja að Hamas og Hezbollah [öfga- og hryðjuverkamenn fyrir botni Miðjarðarhafs] séu vinir sínir.“

Fyrir þá sem hafa áhuga á að greina tengsl vinstrisinna hér á landi við óvini Ísralesríkis er forvitnilegt að sjá hvernig tekið er á tengslum Jeremys Corbyns við Hamas og Hezbollah á vettvangi Verkamannaflokksins.

Drifa-i-palestinuMyndin birtist á vefsíðu ASÍ 4. nóvember 2019. Palestínumenn heiðra Drífu Snædal, forseta ASÍ, þegar hún heimsótti þá á dögunum.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði á vefsíðu sambandsins 4. nóvember 2019:

„Alþýðusamband Íslands skipulagði ferð til Palestínu fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa og þar hittum við palestínsk systursamtök, friðarsamtök, kvennasamtök, palestínsk stjórnvöld og fjölda annarra sem vinna að því að ljúka upp augum heimsins fyrir ástandinu og vinna að bættum hag.“

Forseti ASÍ hallast á sveif með Jeremy Corbyn og félögum. Þeir tala einnig á þennan veg um Palestínumenn og samtök þeirra, vini sína. Leiðir það nú til klofnings í Verkamannaflokknum.

Meðal vinstrisinna hér á landi verða ekki sambærilegar deilur vegna afstöðunnar til gyðinga og Ísraels og setja svip sinn á breska Verkamannaflokkinn.