5.7.2020 11:08

Columbus af stalli - Trump vígreifur

Trump lýsti sjálfum sér sem arftaka þeirra dáðu Bandaríkjamanna sem sigruðu nazista, fasista, kommúnista og hryðjuverkamenn.

Bandaríkjamenn héldu upp á þjóðhátíðardag sinn í gær (4. júlí). Í borginni Baltimore í Maryland-ríki felldi hópur mótmælenda til hátíðarbrigða styttu af Christopher Columbus, dró hana að innri höfn borgarinnar og velti í sjóinn.

Styttan var úr ítölskum Carrara-marmana, afhjúpuð árið 1984 og tók Ronald Reagan Bandaríkjaforseti þátt í athöfninni. Fall styttunnar er nýjasta dæmi uppgjörs við kynþáttahyggju og ofbeldi lögreglumanna í Bandaríkjunum

200704230509-baltimore-columbus-statue-exlarge-169Styttan af Christopher Columbus felld í Baltimore í Maryland-ríki.

Oft er fullyrt af vanþekkingu að Christopher Columbus hafi „fundið“ Ameríku 1492 þótt opinberlega sé viðurkennt nú að Leifur Eiríksson gerði það fyrstur manna.

Í fréttum frá Bandaríkjunum vegna skemmdarverksins í Baltimore segir að Columbus hafi í „sögubókum lengi verið lýst sem hetjunni sem fann Ameríku“ en nú sé „að honum sótt vegna ofbeldisfullrar kúgunar á innfæddum“.

Demókratar fara með stjórn mála í Baltimore og eftir aðförina að Columbus-styttunni sagði talsmaður borgarstjórans að um væri að ræða hluta af „endurmatinu á heimavelli og hvarvetna í heiminum á sumum þessara minnismerkja og höggmynda sem kunna að höfða á ólíkan hátt í ólíks fólks“.

Mótmælendur í Baltimore fóru um götur borgarinnar og kröfðust þess að útgjöld yrðu skorin niður til löggæslu og þeim frekar varið til félagslegrar aðstoðar, opinbera menntakerfið yrði endurskoðað, viðhald á húsnæði fyrir svarta bætt, heimilislausir fengju húsaskjól og fjarlægðar yrðu allar styttur „til heiðurs yfirburðum hvítra, eigendum þræla, þjóðarmorðingjum og nýlendusinnum“.

Kjörnir fulltrúar repúblíkana í Maryland og forráðamenn í samtökum til að efla tengsl Ítalíu og Bandaríkjanna efndu til blaðamannafundar við styttuna af Columbus í júní og hvöttu Larry Hogan ríkisstjóra og borgarstjórann í Baltimore til að vernda minnismerki í borginni vegna hótanna aðgerðasinna um að ráðist yrði á þau.

Í ræðu sem Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti við Hvíta húsið í Washington DC 4. júlí sagðist hann aldrei mundu líða að „reiður skríll“ felldi styttur, strokaði út kafla sögunnar og innrætti börnum að traðka á frelsi þjóðarinnar. Hann sagði mótmælendurna hvorki hafa áhuga á „réttlæti né lækningu“.

Trump lýsti sjálfum sér sem arftaka þeirra dáðu Bandaríkjamanna sem sigruðu nazista, fasista, kommúnista og hryðjuverkamenn.

„Nú vinnum við að því að sigra róttæka vinstrisinna, marxista, stjórnleysingja, æsingamenn, þjófa og fólk sem oft hefur ekki minnstu hugmynd um hvað það er að gera,“ sagði forsetinn.

Þessi harði tónn einkennir í vaxandi mæli ræður forsetans samtímis því sem hann hreykir sér af viðbrögðum sínum og stjórnar sinnar við COVID-19-faraldrinum sem fellt hefur meira en 129.000 Bandaríkjamenn og er hamslaus víðs vegar um landið.

Forsetakosningar verða í Bandaríkjunum í nóvember. Segja stjórnmálaskýrendur að Trump telji sig stuðla að eigin sigri með hörku og sjálfumgleði.