28.2.2019 8:58

Cohen, Kim og Trump

Cohen sagðist hafa logið fyrir Trump en ákveðið að snúa baki við honum til að standa ekki lengur í sömu sporum og þingmennirnir og gera atlögu að eigin mannorði með vörn sinni fyrir forsetann.

Enn einu sannaðist í gær (27. febrúar) að raunveruleikinn er á annan veg en nokkrum skáldsagnahöfundi dytti í hug, sæti hann við tölvu sína. Með þessum orðum er vísað til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti sat í Hanoi í Víetnam og bjó sig undir fund með Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu, á sama tíma og Michael Cohen, fyrrv. einkalögfræðingur Trumps, sat fyrir þingnefnd og lýsti draumi Trumps á þann veg að hann vildi verða einvaldur í Bandaríkjunum. Sagðist hann reisa þessa skoðun á því að hafa verið nánasti samstarfsmaður Trumps og lögfræðilegur handlangari.

Michael Cohen lýsti Trump sem svikahrappi, rasista og svindlara. Hann hefði til dæmis sagt að blökkumenn væru „of heimskir“ til að kjósa sig og ekki átt von á sigri í kosningunum 2016.

Cohen sagði að Trump hefði gefið fyrirmæli um að klámstjörnu yrði greitt þöggunarfé. Forsetinn hefði „skrifað persónulega ávísun“ fyrir Cohen vegna þessa eftir að hann settist að í Hvíta húsinu.

Þeir sem fylgdust með yfirheyrslunni í þingnefndinni sáu suma þingmenn repúblíkana umturnast af reiði þegar þeir leituðust við að þjóna lund Trumps með því að útmála Cohen sem marklausan lygara. Hann hefur verið dæmdur fyrir að ljúga að þinginu.

Cohen sagðist hafa logið fyrir Trump en ákveðið að snúa baki við honum til að standa ekki lengur í sömu sporum og þingmennirnir og gera atlögu að eigin mannorði með vörn sinni fyrir forsetann. Sjálfur hefði hann tapað öllu vegna þess að hafa staðið við hlið Trumps. Hann iðraðist þess nú og vildi leggja sig fram um að bjarga því sem bjarga mætti af eigin mannorði í þágu fjölskyldu sinnar.

Cohen-testimony-grab-abc-ps-190127_hpMain_16x9_992Michael Cohen á fundi þingnefndarinnar.

Þegar Mike Pompeo, utanríkisráðherra Trumps, var hér á landi fyrir tæpum tveimur vikum krafðist Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, þess að íslensk stjórnvöld létu handtaka Pompeo!

Fyrir þingnefndinni sagði Cohen að hann hefði verið með Trump í júlí 2016 þegar Roger Stone, vinur Trumps, hefði hringt og sagt forsetaframbjóðandanum að stofnandi WikiLeaks, Julian Assange, hefði sagt sér að WikiLeaks mundi setja tölvubréf stjórnar Demókrataflokksins á netið. Assange og WikiLeaks studdu Trump gegn Hillary Clinton.

Eftir þennan dag með Cohen í sviðsljósinu vakna Bandaríkjamenn við fréttir frá Hanoi um að viðræður Trumps og Kims hafi verið árangurslausar. Sameiginlegum hádegisverði þeirra hafi verið aflýst og sameiginlegri lokaathöfn.