26.4.2023 8:32

ChatGPT spjallmennið bannað á Ítalíu

Skorað er á þá sem óttast að spjallmenni grafi undan íslensku fullveldi og lýðræði að láta til skarar skríða gegn þeim núna.

ChatGPT, spjallmenni Open AI, sem fer sigurför um heiminn er bannað á Ítalíu. Þegar ég ætlaði að nota það hér í Róm til að semja fyrir mig bréf svaraði OpenAI Support Team og sagðist harma að þeir hefðu orðið að aftengja ChatGPT fyrir notendur á Ítalíu að kröfu ítölsku persónuverndarinnar. Áskrifendum á Ítalíu að ChatGPT Plus er boðin endurgreiðsla á áskriftinni fyrir mars.

Þá segir að þeim sé kappsmál að standa vörð um friðhelgi einstaklinga og þeir telji að ChatGPT standist allar kröfur GDPR, evrópsku persónuverndarreglnanna, sem m. a. hafa verið lögleiddar á Íslandi. Þeir muni vinna að því með ítölskum yfirvöldum að opna Ítölum aðgang að ChatGPT eins fljótt og verða má.

IMG_6850Dante á samnefndu torgi í Napólí.

Ítalska persónuverndin sagði 20. mars að reglur hefðu verið brotnar með leka á upplýsingum um peningafærslu. Það væri ekki neinn lagagrundvöllur fyrir slíkri söfnun á persónuupplýsingum til að „þjálfa“ algoritmann að baki spjallmenninu.

Þá sagði einnig í úrskurðinum að þar sem ekki væri unnt að staðfesta aldur notenda gætu börn orðið fyrir áreiti vegna miðlunar á upplýsingum sem væru alls ekki við hæfi þeirra vegna aldurs og þroska.

Írar sögðust fylgjast með gangi málsins á Ítalíu, þeir hefðu einnig áhyggjur af persónuvernd gagnvart ChatGPT. Google heldur úti spjallmenninu Bard, keppinauti ChatGPT. Aðgangur að Bard er aðeins fyrir 18 ára og eldri.

ChatGPT er bannað í Kína, N-Kóreu, Íran og Rússlandi.

Deilurnar um stöðu spjallmenna í lýðfrjálsum löndum eru líklega rétt að hefjast. Margir vara við samfélagslegri þróun þar sem deilur á borð við þær sem nú eru um framkvæmd á bókun 35 við EES-samninginn 30 árum eftir að hann var lögleiddur verða eins og flugnasuð.

Til að halda í við þróunina verða menn að velja sér verðug viðfangsefni og reyna að hafa áhrif á framvindu þess sem er í mótun en ekki festast í þrætum um mál sem hefði í raun átt að leysa fyrir löngu á grunni þess sem er.

Skorað er á þá sem óttast að spjallmenni grafi undan íslensku fullveldi og lýðræði að láta til skarar skríða gegn þeim núna.

Það er merkilegt í ljósi umræðnanna um framkvæmd bókunar 35 núna og 3. gr. EES-samningsins að í miklum umræðum á þingi fyrir 30 árum var ekki tekist sérstaklega á um þetta efni, öllum var ljóst að Íslendingar ættu að sitja við sama borð og aðrir við framkvæmd fjórfrelsisins, þar var um nýjan rétt Íslendinga að ræða, þann rétt ber að virða.