24.1.2026 10:43

Carney og blekking Kristrúnar

Nú liggur fyrir að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er klofin í ESB-aðildarmálin en ætlunin er að stjórnin standi samt að þingsályktunartillögu sem hefur það meginhlutverk að breiða yfir þennan ágreining.

Þeir sem vilja Ísland inn í ESB telja að ræðan sem Mark Carney forsætisráðherra Kanada flutti á Davos-ráðstefnunni í Sviss þriðjudaginn 20. janúar styðji málstað þeirra. Þetta sannar aðeins kenninguna um að ESB-aðildarsinnar hér grípi hvert hálmstrá til að gera stefnu sína trúverðuga.

Frá árinu 2007 hefur þetta einkennt málflutning Samfylkingarinnar í málinu. Það magnaðist svo mjög við hrun fjármálakerfisins haustið 2008 að Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fór að óskum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra. Kristjáni Þór Júlíussyni alþingismanni var í nóvember 2008 falið að kanna hug sjálfstæðismanna til ESB-aðildar. Niðurstaðan lá fyrir í janúar 2009. Um 70% sjálfstæðismanna voru andvígir aðild.

Á landsfundi í mars 2009 þegar Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins var samþykkt andstaða við aðild að ESB en jafnframt að ekki yrði sótt um aðild nema fyrir lægi stuðningur við það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er enn stefna flokksins. Hún er réttilega útfærð á þann hátt að þjóðaratkvæðagreiðslan fari ekki fram nema meirihluti á alþingi styðji aðild.

Vorið 2016 var Viðreisn stofnuð um þá kenningu að draga mætti skil á milli þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við ESB en ekki um ESB-aðildarumsókn. Þessi stefna er gagnsæ blekkingariðja og leiðir til dæmis nú til þess að þeim er núið um nasir að vera ólýðræðislegir sem benda á blekkinguna.

Nú liggur fyrir að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er klofin í ESB-aðildarmálin en ætlunin er að stjórnin standi samt að þingsályktunartillögu sem hefur það meginhlutverk að breiða yfir þennan ágreining. Skýrari verður tvískinnungurinn ekki. Forystuleysi forsætisráðherrans er algjört.

ImagesbbbbMark Carney

Í ræðu sinni varar Mark Carney við að þannig sé stjórnað. Hann bendir á hættuna af því að menn setji skilti í gluggann hjá sér til stuðnings einhverju sem stenst ekki. Hann vitnar í ritgerð eftir Vaclav Havel um kaupmanninn sem setti á hverjum morgni skilti í gluggann sinn: „Verkamenn allra landa, sameinist!“ Hann trúði því ekki. Enginn trúði því. En hann setti skiltið upp samt sem áður – til að forðast vandræði, til að sýna fylgispekt, til að komast af. Og af því að hver einasti kaupmaður í hverri einustu götu gerði það sama lifði stjórnkerfi kommúnismans áfram. Ekki bara með ofbeldi, heldur með þátttöku venjulegs fólks í athöfnum sem það vissi innst inni að væri blekking.

Nú verður skiltinu um að enginn geti verið á móti ESB-viðræðum veifað þótt innst inni viti allir að málið snýst um að festa þjóðina í ESB-aðlögunarferli án nokkurs skilgreinds umboðs fyrir íslensk stjórnvöld.

Ræða kanadíska forsætisráðherrans snerist um það að á þessum tíma rofs í alþjóðakerfinu yrði meðalstórt ríki eins og Kanada að leita samstarfsaðila á nýjan hátt, ekki nota gamla skiltið sem er einmitt einkenni ESB-sinna hér. Carney sagði að ný afstaða Kanadamanna væri reist á því sem Alexander Stubb Finnlandsforseti hefði kallað „gildishlaðið raunsæi“. Þeir stefndu að því að vera bæði skoðanafastir og raunsæir. Ekkert er fjær því að lýsa ESB-stefnu ríkisstjórnar Íslands.