28.10.2018 21:47

Bylting boðuð í Silfrinu

Reiði Gunnars Smára má rekja til þess að í orðum Stefáns Einars fólst gagnrýni á að við gjaldþrot Fréttatímans skildi Gunnar Smári starfsmenn eftir í óvissu um laun sín. 

Ár og dagur er liðinn frá því að ég horfði á Silfrið  í sjónvarpinu. Þegar ég sá á Facebook að hörð orðaskipti hefðu orðið í þættinum í gær (28. október) milli Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, og forystumanns sósíalista Gunnars Smára Egilssonar, leit ég á þann hluta þáttarins.

Þar stjórnaði Egill Helgason samtali Gunnars Smára og Stefáns Einars auk Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, og Ragnars Önundarsonar viðskiptafræðings. Þau ræddu stöðuna í verkalýðshreyfingunni og kjaramál.

Boðskapur Egils var að öll spjót myndu standa á ríkinu í komandi viðræðum aðila vinnumarkaðarins.

Ragnar Önundarson taldi að ná mætti „mjúkri lendingu“ eins og hann orðaði það. Lagði hann gott til mála en nefndi einnig „patentlausnir“.

Inga Sædal hóf mál sitt með því að segja að í landinu ríkti ástand sem kynni að leiða til byltingar yrði ekki samþykkt tillaga flokks hennar á alþingi um lágmarkslaun og skattleysi.

Stefán Einar nefndi að hann hefði sem formaður VR ritað undir kjarasamning 2011 þegar lágmarkslaun voru 185.000 kr. en síðan hefðu laun hækkað um 65% í 300.000.

Gunnar Smári flutti ræðu um arðrán og stéttaskiptingu að hætti sósíalista. Hann gerði lítið úr því sem Stefán Einar sagði um launahækkanir á grundvelli samninganna frá 2011.

44904970_10217921777980304_1940362771455541248_nGunnar Smári náði sér ekki á strik eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Stefáni Einari í Silfrinu.

Þeir voru sessunautar Gunnar Smári og Stefán Einar og brást sá síðarnefndi við með því að klappa á handlegg sessunautar síns og segja „Ég borgaði þó allavega laun Gunnar, ólíkt þér. Ólíkt þér þá borgaði ég þó laun.“

Þessu tók Gunnar Smári illa og spurði hvort Stefán Einar væri ekki siðfræðingur (sem er rétt). Ætlaði Gunnar Smári greinilega að slá Stefán Einar út af laginu sem mistókst og náði sósíalistinn sér ekki á strik eftir þessi orðaskipti. 

Reiði Gunnars Smára má rekja til þess að í orðum Stefáns Einars fólst gagnrýni á að við gjaldþrot Fréttatímans skildi Gunnar Smári starfsmenn eftir í óvissu um laun sín.  

Í bandarískum sjónvarpsstöðvum birtast margir viðræðuþættir á sunnudögum. Þar eru fjögurra manna viðræður eins og hermt er eftir í Silfrinu.  Í bandarísku þáttunum er lögð áhersla á að ólík sjónarmið birtist. Stjórnendur velja viðmælendur leggja mál upp á þann veg að samtalið sé málefnalegt. Þeir vilja ekki sitja undir ámæli fyrir að hvetja til árekstra og óvinafagnaðar.

Ólíklegt er að nokkrum þáttarstjórnanda í Bandaríkjunum dytti í hug að kalla til samtals í sunnudagsþáttum einhvern sem hvetur til byltingar eins og Inga Sæland eða boðar stéttastríð í nafni sósíalista eins og Gunnar Smári. Þetta er svo langt frá því sem skynsamlegt er að ekki á erindi nema í einhverja sérvisku þætti.