20.11.2025 9:59

Byggðafesta rædd í Sælingsdal

 Í erindum annarra á málþinginu birtist sá sóknarkraftur sem einkennir alla fundi sem ég hef sótt undanfarin ár þar sem rætt er um nýsköpun og tækifæri í landbúnaði.

Mánudaginn 17. nóvember renndum við Rut 175 km vestur í Dali, nánar tiltekið til Dalahótels á Laugum í Sælingsdal. Þar var efnt til málþings þriðjudaginn 18. nóvember undir heitinu: Ég bý í sveit - málþing um leiðir til byggðafestu. Málþingið var lokapunktur verkefnisins Leiðir til byggðafestu sem við Hlédís Sveinsdóttir unnum sem verktakar hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra (SSNV). Var sérstaklega hugað að sauðfjárræktarsvæðum Dalabyggðar, Stranda og Húnaþings vestra.

Skýrsla okkar Leiðir til byggðafestu er dagsett í janúar 2024 og eftir útkomu hennar hefur Hlédís skipulagt og efnt til námskeiða af ýmsu tagi á grundvelli hennar. Það kom í minn hlut að greina og skrifa um það sem við köllum kerfisleg verkefni. Þau verða ekki að veruleika til að fjölga störfum og stuðla að byggðafestu án þess að margir leggi hönd á plóg.

Í skýrslunni eru nefnd sex slík verkefni á þessu svæði: Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, uppbyggingin í Ólafsdal við Saurbæ í Dölum, kræklingarækt, kolefnisspor sauðkindarinnar, fóðuriðja í Saurbæ og þörungavinnsla.

Á málþinginu fjallaði ég um fjögur þessara verkefna, sleppti virkjuninni og Ólafsdal.

Á þessum slóðum býr landið yfir ótrúlega sterkum auðlindum sem ber að nýta: hreinum hafsvæðum, jarðvarma, víðfeðmu beitarlandi, lífmassa og öflugri vísindalegri þekkingu. Ef þessir kraftar eru sameinaðir getur Ísland skapað nýjar atvinnugreinar sem eru sjálfbærar, arðbærar og styrkt byggðir sem lengi hafa átt undir högg að sækja. Hér er boðskapur minn í fjórum línum.

Kræklingarækt: grein sem hvarf er lykillinn að nýrri strandbyggð.

Þörungar: stærsta ónýtta auðlind Íslands.

Kolefnisbinding beitar: hin ósýnilega auðlind landsbyggðarinnar.

Ræktun á grasi og korni: þörfin fyrir prótín er takmarkalaus.

Í lokin brá ég upp þessari mynd úr franska blaðinu Le Figaro frá 15. nóvember þar sem íslenska orðið skyr er nefnt fyrst þegar rætt er um prótín og hvatt til aukinnar hollustu:

Screenshot-2025-11-16-at-12.53.44

Í erindum annarra á málþinginu birtist sá sóknarkraftur sem einkennir alla fundi sem ég hef sótt undanfarin ár þar sem rætt er um nýsköpun og tækifæri í landbúnaði. Á stjórnmálavettvangi er kallað eftir nýsköpun, í verki er hún ekki alltaf auðveld vegna eftirlitskerfisins.

Aðstæður á Dalahóteli voru eins og best verður á kosið bæði til gistingar og fundarhalda. Matreiðslumeistari staðarins kann vel til verka við meðferð hráefnis úr heimabyggð.

Streymt var frá málþinginu og líklega verður unnt að nálgast það sem fram fór á vefsíðunni https://www.vestfirdir.is/is

Á leiðinni vestur var snjó- og hálkulaust allt að afleggjaranum að Dalahóteli. Það snjóaði að morgni miðvikudagsins í Sælingsdal og dálítið á heimleiðinni. Brattabrekka var auð og hálkulaus vegna söltunar þar til kom að Dalsmynni en brekkan þaðan niður að þjóðvegi 1 var ósöltuð og flughál, skrýtið.