4.6.2021 9:37

BSRB og lokun Domus Medica

Forystumenn BSRB ættu nú að láta kanna hve margir fagna því að stefna heilbrigðisráðherra lokar Domus Medica um næstu áramót.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í grein í Fréttablaðinu fimmtudaginn 3. júní að BSRB hafi „í gegnum tíðina látið gera reglulegar skoðanakannanir á afstöðu almennings til heilbrigðiskerfisins með Rúnari Vilhjálmssyni prófessor“. Niðurstaða slíkrar könnunar var nýlega birt og sló fréttastofa ríkisútvarpsins henni upp í hádegisfréttatíma sínum eins og um yfirgnæfandi stuðning við frekari ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins væri að ræða. Þessar reglulegu kannanir BSRB og túlkanir á þeim eru sjálfsstyrkingarleið þeirra sem vilja halda öllum einkarekstri í skefjum, ekki einungis í heilbrigðismálum heldur til dæmis einnig á sviði fjölmiðlunar með milljarða framlagi skattgreiðenda til ríkisútvarpsins.

Formaður BSRB-kostunaraðilans segir í fyrrnefndri grein:

„Ný skoðanakönnun sýnir svo ekki verður um villst að mikill meirihluti landsmanna vill heilbrigðiskerfi sem rekið er af hinu opinbera fyrir skattfé okkar allra og hafnar aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. [...] Við verðum að draga línu í sandinn og hafna alfarið frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Einkaframkvæmd er ekki töfraorð sem lækkar kostnað.“

Þarna farið um víðan völl, einkarekstur, einkavæðing og einkaframkvæmd er ekki eitt og hið sama. Sonja Ýr hirðir ekkert um það en telur að könnun Reynis Vilhjálmssonar og túlkun hans á henni sýni að málstaður hennar og BSRB njóti stuðnings meirihluta þjóðarinnar.

P01-fig1_optDomus Medica við Egilsgötu í Reykjavík (mynd: Læknablaðið).

Í Morgunblaðinu birtist miðvikudaginn 2. júní birtist leiðari þar sem kvað við annan tón: Sonja Ýr óttist líklega að BSRB missi „spón úr aski sínum færist launamenn úr opinbera geiranum í einkageirann“.

Það sé rangt hjá BSRB-formanninum að þjóðin standi frammi fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, nær sé að núverandi heilbrigðisráðherra standi að frekari ríkisvæðingu. Þá hafi Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, bent á að könnun BSRB sýni að flestir séu sammála um að ríkið eigi að reka sjúkrahús en einnig að „landsmenn styðja fjölbreytt rekstrarform“.

Séu lögð saman svör þeirra sem vilja blandað kerfi í heilbrigðisþjónustunni og þeirra sem vilja fyrst og fremst einkarekstur, svo sem þjónustu sjúkraþjálfara, tannlækna, sjálfstætt starfandi sérfræðilækna á stofu og sálfræðinga er stuðningurinn við það frá 58% upp í 71%. Kannanir sýna mikla ánægju með einkareknar heilsugæslur, þær raða sér í efstu sæti könnunar á ánægju með þjónustu heilsugæslustöðva.

Morgunblaðið segir forystu BSRB nota „félagið til að reyna að fjölga félögum sínum á kostnað einkaaðila í heilbrigðisþjónustu“. Þetta sé hluti „af pólitískri baráttu sumra forystumanna stéttarfélaga, sem er ekkert annað en misnotkun á sjóðum félagsmanna“.

Ætli forystumenn BSRB að viðhalda stöðu og styrk félags síns með því að styðjast við kannanir Reynis Vilhjálmssonar og bjagaða túlkun á niðurstöðum þeirra ættu þeir nú að láta kanna hve margir fagna því að stefna heilbrigðisráðherra lokar Domus Medica um næstu áramót.