23.5.2023 9:26

BSRB í ólgusjó

Tilefni alls þessa er að kjarasamningur opinberu starfsmannanna rann út 1. apríl en BSRB vill launahækkanir frá áramótum af því að aðrir starfsmenn hafa annan samningstíma og fengu hækkun launa í samræmi við það.

Óvenjulegt tilefni er til verkfallsaðgerða sem BSRB, félag opinberra starfsmanna, stofnar til í 29 sveitarfélögum um land allt um þessar mundir og kemur sér illa fyrir leikskóla- og grunnskólabörn og aðstandendur þeirra. Boðað er að einnig verði gerð atlaga að þeim sem sækja sundstaði sér til heilsubótar.

Tilefni alls þessa er að kjarasamningur opinberu starfsmannanna rann út 1. apríl en BSRB vill launahækkanir frá áramótum af því að aðrir starfsmenn hafa annan samningstíma og fengu hækkun launa í samræmi við það.

Árangurslaus sáttafundur var haldinn í gær (22. maí) og ríkissáttasemjari sér ekki ástæðu til að boða annan fund vegna þess hve mikið ber á milli aðila. Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) sem fer með samningsumboð fyrir sveitarfélögin bendir BSRB á að láta reyna á kröfu sína fyrir dómi, hvort hún sé í raun lögmæt en Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hafnar því, málaferli taki svo langan tíma!

1368505

Þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lét reyna á lögmæti ákvarðana ríkissáttasemjara um miðlunartillöguna og kjörskrána fyrr á árinu höfðu dómarar skjótar hendur enda mikið í húfi að fá leyst úr þeirri þrætu. Hvers vegna ætti annað að gilda núna?

Málflutningur formanns BSRB vegna þessarar deilu sem snertir þúsundir barna og enn fleiri aðstandendur er ósannfærandi. Nýjasta útspil hennar er að láta eins og það sé svo lág fjárhæð sem um er deilt að í gustukaskyni eigi sveitarfélögin að verða við BSRB-kröfunni.

Samningar skulu standa hefur löngum verið kjörorð verkalýðsforingja. Í þessari deilu er þess krafist að það verði að engu haft og látið eins og það sé lítillækkandi fyrir starfsmenn BSRB að sinna störfum sínum í samræmi við kjarasamning félagsins af því að þeir fái ekki hungurlúsina sem formaðurinn lýsir svo:

„Við áætlum það miðað við þessar upplýsingar sem við höfum að þetta væri um 0,3 prósent af heildarlaunakostnaði sveitarfélaga, sem sýnir að þetta eru ekki stórar upphæðir sem um ræðir og hefði raunverulega ekki þurft að koma til verkfallsaðgerða til þess að knýja fram þessa kröfu,“ segir Sonja Ýr í Morgunblaðinu í dag (23. maí).

Formaður BSRB óttast líklega að starfsmennirnir sem um ræðir segi sig einfaldlega úr félagi hennar og velji sér stéttarfélag sem stendur á annan veg að gæslu hagsmuna félagsmanna sinna. Aðgerðir BSRB minna enn einu sinni á hve íslenska vinnulöggjöfin og krafan um aðild að verkalýðsfélagi til að eiga forgangsrétt að ákveðnu starfi lagar sig illa að breyttum aðstæðum á vinnumarkaði. Hækka ekki laun umræddra starfsmanna sjálfkrafa skipti þeir einfaldlega um stéttarfélag?

Það er einkennilegt að sveitarfélögin hvetji ekki starfsmenn sína til að fara úr BSRB svo að þjónustan við almenning rofni ekki. Þegar samfylkingarkonan Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, var kjörin formaður SÍS í ágúst 2022 var hún stöðugt í fjölmiðlaljósinu. Nú fylgir hún sömu reglu og borgarstjórinn að láta ekki sjá sig og veita ekki viðtöl þegar gefur á bátinn.