9.10.2022 10:20

Brúaráfall Rússa

Bent er á að niðurlæging Pútins vegna atviksins á brúnni sé meira en ella þar sem það varð daginn eftir að hann fagnaði 70 ára afmæli sínu.

Fyrir þá sem búa utan Rússlands og lifa ekki við stöðugan og einhliða áróður stjórnvalda þar er ógjörningur að gera sér í hugarlund áfallið laugardaginn 8. október vegna fréttanna um sprengingu og eldsvoða á Krímbrúnni sem tengir suðurhluta Rússlands yfir Kertjssund til Krímskaga.

Brúin, 19 km löng, lengsta brú Evrópu, er ekki aðeins tákn um endanlega innlimun Krímskaga í Rússland heldur vitnisburður um verkfræðilegt afrek undir stjórn Valdimirs Pútins sem ók fyrstur manna bifreið yfir hana árið 2018, aðeins þremur árum eftir að hafist var handa við brúarsmíðina.

IbrundexGervihnattarmynd sem sýnir tjónið sem varð á Krímbrúnni 8. október 2022.

Vegna tjónsins sem varð á brúnni, hún nýtist aðeins fyrir „létta umferð“, krefst Vladimir Solovjov, helsti áróðursmeistari Pútins, þess að svarað með grimmilegum hætti í anda Stalíns og Úkraínu verði „steypt aftur í myrkar aldir“, allir Rússar verði kallaðir út til allsherjarstríðs við Úkraínumenn.

Solovjov gaf til kynna í reiðilestri sínum að óvinir Rússlands hefðu búið um sig innan landamæra þess og nú yrði að grípa til sambærilegra aðgerða og í tíð Stalíns til að uppræta slíka andstæðinga allsherjarstríðs við Úkraínu.

Áróðursmeistarinn vísar til SMERSH-aðgerða Stalíns undir slagorðinu: Drepum njósnara. Upphaflega var gripið samræmdra aðgerða nokkurra gagn-njósnadeilda Stalíns til að gera út af við þýska njósnara innan sovéska hersins síðan varð markmið SMERSH að finna og uppræta alla sem stunduðu undirróður.

„Það er tímabært að rifja unn sovésku herþjálfunina og grípa til markvissra og skapandi aðgerða,“ sagði Solovjov og einnig:

„Ekki að bregðast við aðgerðum óvinarins heldur eyðileggja áætlanir hans, gefa honum óvænt högg á þar sem óvinurinn er ekki við þeim búinn. Steypa á Úkraínu aftur í myrkar aldir. Brýr, stíflur, lestarteinar, hitaveitur og önnur grunnvirki um alla Úkraínu á að eyðileggja.

Landið [Rússland] á að taka á sig styrjaldarsvip – hvarvetna. Þar með á að innleiða SMERSH að nýju. Allt í þágu víglínunnar, allt í þágu sigurs.“

Bent er á að niðurlæging Pútins vegna atviksins á brúnni sé meira en ella þar sem það varð daginn eftir að hann fagnaði 70 ára afmæli sínu. Forseti Tajikistan gaf Pútin melónu-pýramída en Alexander Lukasjenko, einræðisherra í Belarús, gaf honum traktor.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sýndi á hinn bóginn gamla takta sem gamanleikari þegar hann flutti þessar „veðurfréttir“ eftir að brú Pútins hafði laskast:

„Í dag var gott veður og að mestu sólskin um allt land okkar. Í flestum landshlutum var yfir 20 stiga hiti og sólríkt. Því miður var skýjað yfir Krím en áfram heitt. Hvað sem skýjunum líður vita Úkraínumenn hvað þeir eiga að gera og þeir vita að framtíð okkar er sólrík. Þetta er framtíð án innrásarliðs, hvarvetna í landi okkar, sérstaklega á Krím.“