9.12.2018 10:29

Brexit-úrslitastund nálgast

Innan Íhaldsflokksins búa menn sig undir að May neyðist til að segja af sér verði Brexit-tillagan felld.

Að því er stefnt að breska þingið greiði þriðjudaginn 11. desember atkvæði um Brexit-tillögu Theresu May forsætisráðherra. Í blaðinu Sunday Times segir 9. desember að May ætli að draga tillöguna til baka, halda til Brussel og leita eftir betri samningi.

Tillögu May er einkum fundið til foráttu að varnaglaákvæðið vegna Norður-Írlands kunni að loka Breta inni í tollasamstarfi við ESB og þar með þrengja svigrúm breskra yfirvalda til að stunda frjálsa verslun.

Þingmönnum Íhaldsflokksins hefur verið gefinn frestur til hádegis sunnudaginn 9. desember til að skýra frá því hvernig þeir ætla að haga atkvæði sínu.

_104705431_gettyimages-925326790Á lokametrunum líkja flokksbræður Theresu May henni við ísdrottningu.

Frá Theresu May berast fréttir um að ekki sé fótur fyrir því að hún ætli að fresta atkvæðagreiðslunni á þriðjudag. Þvert á móti varar hún við því í samtali við blaðið The Mail on Sunday að það kalli á „alvarlega óvissu“ fyrir Breta verði tillaga hennar felld. Það kynni að leiða til þingrofs og nýrra kosninga og þá væri „veruleg hætta“ á að Brexit yrði úr sögunni.

Innan Íhaldsflokksins búa menn sig undir að May neyðist til að segja af sér verði Brexit-tillagan felld.

Þrír karlar eru nefndir sem hugsanlegir frambjóðendur í leiðtogasætið: Boris Johnson, fyrrv. utanríkisráðherra, Sajid Javid innanríkisráðherra og Jeremy Hunt utanríkisráðherra. Samvinna er sögð milli Javids og Hunts.

Á ríkisstjórnarfundi fimmtudaginn 6. desember gengu ráðherrar á May og vildu vita hvað hún ætlaði að gera tapaði hún atkvæðagreiðslunni. Svaraði hún því engu og er nú er hún óvinsamlega kölluð Theresa the Freezer .

Haft er eftir stuðningsmanni Boris Johnsons að hann hafi aldrei séð foringja sinn jafn „einbeittan“. Annar stuðningsmaður úr hópi þingmanna sagði að Johnson hefði grennst og hann væri eins og söguhetjan Aslan í Narnia-bókum C.S. Lewis sem segði: „Tími ísdrottningarinnar er liðinn. Nú kemur þíðan.“