14.6.2018 14:33

Brexit: May á bláþræði

Erfiðleikarnir vegna Brexit taka engan enda innan Íhaldsflokksins, í Bretlandi og innan Evrópusambandsins.

Í neðri deild breska þingsins eru nú greidd atkvæði um ESB-úrsagnarfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þetta er í annað sinn sem þingmenn deildarinnar fjalla um frumvarpið en í millitíðinni var það til meðferðar í lávarðadeildinni sem gerði ýmsar tillögur til breytinga. Ein þeirra var um að í viðræðum við ESB ætti ríkisstjórnin að stefna að EES-lausn. Þessari tillögu var hafnað með 327 atkvæðum gegn 126.

Við atkvæðagreiðsluna klofnaði þingflokkur Verkamannaflokksins á þann veg að 90 þingmenn urðu ekki við kröfu flokksins um að greiða ekki atkvæði, af þeim studdu 75 tillöguna en 15 höfnuðu henni. Til að geta tekið þátt í atkvæðagreiðslunni afsöluðu sex þingmenn flokksins sér sæti í skuggaráðuneyti hans. Það verða menn að gera í breska þinginu fylgi þeir ekki ákvörðun þingflokksstjórnarinnar. Þannig sagði dómsmálaráðherra Íhaldsflokksins af sér áður en til þessara atkvæðagreiðslna kom til að hafa frjálsar hendur.

Brexit-1381030Andstæðingar Brexit mótmæla fyrir utan þinghúsið í London

Neðri deildin felldi einnig breytingartillögu lávarðadeildarinnar um að gera tollabandalag Bretlands og ESB að meginmarkmiði viðræðnanna eftir að ríkisstjórnin lagði til orðalagsbreytingu sem breytti customs union í customs arrangement : tolla-tilhögun, tolla-fyrirkomulag.

Helsti ágreiningurinn áður en atkvæðagreiðslur um breytingartillögur lávarðadeildarinnar hófust snerist, sé málaflækjan rétt skilin, um hvort þingmenn komi að endanlegri efnislegri niðurstöðu gagnvart ESB og grípi fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar. Þetta er orðað þannig að efnt verði til meaningful vote það er„efnislegrar atkvæðagreiðslu“ um úrsögnina í þinginu sem gefi ríkisstjórninni fyrirmæli um efni samnings við ESB ef við blasi að Bretar fari einfaldlega úr ESB án samkomulags í mars 2019.

Þeir sem þetta vilja eru ESB-aðildarsinnar í neðri deildinni og lávarðadeildinni. Theresa May forsætisráðherra samdi á elleftu stundu þriðjudaginn 12. júní um að tillagan kæmi ekki til atkvæða og þingmenn Íhaldsflokksins felldu breytingatillögur lávarðadeildarinnar. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar settust í staðinn til viðræðna við ESB-aðildarsinna í eigin flokki um enn eina sáttaleiðina innan flokksins vegna Brexit og yrði hún kynnt í lávarðadeildinni í næstu viku. Allt þetta gerir May með því fororði að hún geti ekki „lagt blessun sína yfir að þingið geti haft vilja bresku þjóðarinnar að engu“. Það verði með öðrum orðum ekki hróflað við Brexit.

Erfiðleikarnir vegna Brexit taka engan enda innan Íhaldsflokksins, í Bretlandi og innan Evrópusambandsins.