24.5.2020 11:05

Bretland: Veiruspenna á æðstu stöðum

The Telegraph segir að liggi við borgarastyrjöld innan þingflokks íhaldsmanna vegna þess að Boris Johnson tekur málstað Cummings.

Á vefsíðunni The Telegraph og vefsíðu BBC eru „beinar“ fréttir af deilum um hvort Dominic Cummings, aðalráðgjafi forsætisráðherrans, skuli víkja úr opinberri þjónustu vegna þess að hann hafi brotið gegn reglum um ferðabann. Eiginkona hans var með einkenni af COVID-19-veirunni og óku þau til heimilis síns í Durham, norðaustur af London, til að dveljast í einangrun. Ef til vill hefði Cummings komist upp með eina ferð en í dag, sunnudag 24. maí, segja blöðin Observer og Sundy Mirror að fyrir utan upphaflegu ökuferðina hafi Cummings sést tvisvar á ferð í Durham eftir að hann smitaðist sjálfur af veirunni.

The Telegraph segir að liggi við borgarastyrjöld innan þingflokks íhaldsmanna vegna þess að Boris Johnson tekur málstað Cummings sem hafnar að hann hafi ítrekað brotið gegn reglum um heimadvöl.

CumDominic Cummings

Cummings hefur lengi verið umdeildur en til snilli hans sem ráðgjafa og skipuleggjenda kosninga- og stjórnmálabaráttu er rakið að brexit-sinnar unnu atkvæðagreiðsluna um úrsögn úr ESB sumarið 2016. Hann á að hafa ráðið mestu um framgöngu Johnsons eftir að hann varð forsætisráðherra, að knýja fram þingkosningar og síðan að sigra í þeim.

Hvað sem líður örlögum Cummings er hitt stærra í sniðum að nóbelsverðlaunahafi frá 2013 í efnafræði Michael Levitt, prófessor við Stanford-háskóla, sendi í mars Neil Ferguson, þáv. helsta COVID-19-ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar, viðvörun um að Ferguson hefði ofmetið hugsanlegt mannfall af völdum veirunnar í Bretlandi „10 eða 12 fallt“. Ferguson sem starfar við Imperial College lagði líkan fyrir bresku ríkisstjórnina sem að mati Levitts stuðlaði ónauðsynlegri „hræðslu-veiru“ meðal stjórnmálamanna. Bannreglur hefðu orðið of strangar, nægt hefði að mæla með grímum og tveggja metra reglu.

Í samtali við The Telegraph segir Levitt að bannreglurnar kunni að hafa fjölgað dauðsföllum. Vegna þeirra hafi t.d. umferðarslysum fækkað en félagslegu afleiðingarnar séu mjög alvarlegar, heimilisofbeldi, skilnaðir, alkóhólismi. Þá megi ekki gleyma þeim sem fái ekki meðferð vegna annarra sjúkdóma.

Eftir að Levitt lagði mat á tölur frá Kína og útbreiðslu veirunnar um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess spáði hann því 14. mars að alls mundu um 50.000 deyja af völdum veirunnar í Bretlandi. Neil Ferguson lagði í sömu viku fram spá um 500.000 manna mannfall í Bretlandi nema gripið yrði til strangra bannreglna til að hindra samskipti fólks. Nú hafa um 36.600 dáið vegna veirunnar í Bretlandi.

Levitt segir að veiran hafi verið orðin svo útbreidd þegar Bretar settu á bann að það skipti í raun engu mál. Bretar hefðu átt að fara sömu leið og Svíar. Hann segir reynsluna sýna að veiran hverfi í þurrum hita og einhvers konar ónæmi virðist vera á Vesturlöndum. Þegar hann er spurður um aðra COVID-19-bylgju segist hann hafa mestar áhyggjur af Kína.

Neil Ferguson hvarf frá störfum fyrir bresku ríkisstjórnina þegar fréttir bárust um að ástkona hans hefði brotið bannreglur til að hitta hann. Nú er spurning hvort Dominic Cummings verður að víkja vegna brota á reglunum.