30.12.2020 9:44

Bretar fá nýtt bóluefni

Samið hefur verið um kaup á um 230.000 skömmtum af bóluefninu fyrir Íslendinga, það er fyrir um 115.000 manns. Óljóst er hvenær þeir berast til landsins.

Breska lyfjaeftirlitið heimilaði miðvikudaginn 30. desember notkun á COVID-19 bóluefni frá AstraZeneca PLC við Oxford-háskóla. Verður milljónum skammta efnisins dreift um allt Bretland þar sem pestin breiðist út með miklum hraða og stofnar heilbrigðiskerfinu í hættu.

AstraZeneca er þriðja bóluefnið framleitt á Vesturlöndum sem fær sérstaka afgreiðslu lyfjaeftirlits í þessu mánuði. Hingað til lands er þegar komið bóluefni frá Pfizer/BioNTech og hófst bólusetning með því í gær (29. desember). Þá hefur bóluefni frá Moderna Inc. einnig fengið samþykki í Bandaríkjunum.

Samið hefur verið um kaup á um 230.000 skömmtum af bóluefninu fyrir Íslendinga, það er fyrir um 115.000 manns. Óljóst er hvenær þeir berast til landsins.

Íslensk yfirvöld og Kári Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa rætt við forráðamenn Pfizer í Bandaríkjunum um að fyrirtækið sjái Íslendingum nær tafarlaust fyrir nægu magni bóluefnis til að sprauta alla þjóðina og nýta afrakstur reynslunnar til að meta áhrifamátt efnisins. Morgunblaðið sagði í gær að viðræður um þetta væru á „viðkvæmu stigi“.

Bretar glíma við nýtt afbrigði veirunnar sem sögð er smitast um 70% auðveldar en fyrri afbrigði hennar. Vísindamenn segja að öll vestrænu bóluefnin séu álíka öflug gegn breska afbrigðinu og fyrri afbrigðum.

Im-276789Unnið að gerð AstraZeneca-bóluefnisins í Jenner-stofnuninni í Oxford.

Þeir sem fá bóluefnið frá Pfizer þurfa að fá tvo skammta á þriggja vikna bili. Fulltrúar AstraZeneca og breskra yfirvalda segja að meiri sveigjanleiki sé á milli tveggja skammta af AstraZeneca-bóluefninu eða fjórar til 12 vikur.

Þetta auðveldar að gefa sem flestum fyrri skammtinn sem fyrst. Bresk yfirvöld hafa pantað 100 milljón skammta frá AstraZeneca og verða margar milljónir afhentir á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Í klínískum tilraunun reyndist vörn AstraZeneca-bóluefnisins vera á bilinu 62% til 90%. eftir stærð skammta. Tveir fullir skammtar með fjögurra vikna millibili leiddu til 62% virkni. Væri fyrri skammturinn aðeins minni en fullur síðari skammtur reyndist virknin 90%. Tilraunin með mismunandi skammtastærð var gerð á fólki 18 til 55 ára. Sérfæðingar í Oxford eða hjá AstraZeneca hafa ekki skýrt ástæðuna fyrir þessum mun. Fyrr á árinu höfðu lyfjayfirvöld sagt að ekki yrði neitt bóluefni viðurkennt nema virkni þess væri yfir 50% gegn veirunni og kæmi þannig í veg fyrir að leggja þyrfti sjúkling á sjúkrahús eða líf hann væri í hættu.

Bóluefnið er þróað í Jenner-stofnuninni í Oxford. Í apríl 2020 hófst samstarf vísindamanna þar og hjá fyrirtækinu AstraZeneca. Í nóvember 2020 lágu fyrir samningar um sölu þriggja milljarða skammta. Fyrr á árinu höfðu bresku vísindamennirnir forskot en vegna vandræða á tilraunastigi drógust þeir aftur úr í keppninni við Pfizer og Moderna. Því hefur verið spáð að í febrúar samþykki lyfjaeftirlit Bandaríkjanna og ESB AstraZeneca-bóluefnið. Almenn notkun þess í Bretlandi kann að breyta þeirri tímasetningu.