11.12.2024 11:39

Brestir í glansmyndinni

Engar yfirbreiðslur duga til að fela brestina í glansmyndinni sem stjórnarmyndunarflokkarnir sýna nú í fjölmiðlum.

Framsóknarflokkurinn á ekki lengur neina þingmenn í Reykjavík. Tveimur ráðherrum flokksins sem voru þingmenn Reykvíkinga, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, var hafnað af kjósendum. Framsóknarmanninn á borgarstjórastóli skortir bakland meðal þingmanna.

Píratar eiga ekki lengur neina þingmenn. Flokki þeirra var alfarið hafnað á kjördag. Píratar í borgarstjórn mega sín lítils.

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri Samfylkingarinnar, skipaði annað sæti á lista flokks síns í Reykjavíkurkjördæmi norður. Útstrikanir á listanum nægðu til að fella hann um eitt sæti. Það var formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, efsti maður á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, sem benti kjósendum á að vildu þeir ekki Dag skyldu þeir einfaldlega strika yfir nafn hans.

Sýnir þetta hve pólitískar stoðir meirihlutans sem stjórnar Reykjavíkurborg veiktust mikið í þingkosningunum 30. nóvember. Segja má að Viðreisn sé nú öflugasta pólitíska aflið í meirihlutanum.

1535887Um daginn var talað um stjórnarmyndun fyrir jól nú stefnir Kristrún Frostadóttir á að það gerist fyrir áramótin. Hvað hefur hún umboðið lengi? (Mynd mbl.is/Eyþór.)

Kolbrún Áslaug Baldursdóttir hefur verið borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir hönd Flokks fólksins frá árinu 2018. Kolbrún tók sæti á alþingi um tveggja mánaða skeið árið 2006 fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Hún náði kjöri fyrir Flokk fólksins á þing núna, var í öðru sæti í Reykjavík suður, næst á eftir formanninum Ingu Sæland.

Kolbrún er sálfræðingur og hefur oft lýst opinberlega hve óbærilegt sé að sitja undir ávirðingum borgarfulltrúa meirihlutans og einkum Samfylkingarinnar. Fulltrúar Flokks fólksins hafi ítrekað mátt þola óásættanlega framkomu þessa fólks. Hún fái kvíðaköst í magann þegar hún sé innan um suma borgarfulltrúa.

Eftir kosningar til borgarstjórnar árið 2022 vildi eini borgarfulltrúi VG, Líf Magneudóttir, ekki lengur starfa innan meirihlutans. Nú hefur VG þurrkast út af þingi.

Hún er ekki glæsileg myndin sem við blasir þegar hugað er annars vegar að pólitískri stöðu meirihlutans í Reykjavík að loknum þingkosningum og hins vegar að því hvað reynslan af stjórn höfuðborgarinnar segir um andrúmsloftið meðal þeirra sem nú vinna að því að mynda ríkisstjórn.

Innan Samfylkingarinnar er alls ekki gróið um heilt milli Kristrúnar og Dags B. þótt borgarstjórinn fyrrverandi segist hafa kastað gagnrýni flokksformannsins aftur fyrir sig.

Pólitískur ferill Dags B. undanfarin 20 ár sýnir að hann er langræknari en hann vill sjálfur láta. Fulltrúar Flokks fólksins í borgarstjórn hafa goldið þess, svo ekki sé minnst á illvilja hans í garð sjálfstæðismanna.

Engar yfirbreiðslur duga til að fela brestina í glansmyndinni sem stjórnarmyndunarflokkarnir sýna nú í fjölmiðlum.