31.10.2024 10:46

Breskt fordæmi Samfylkingarinnar

Staðreynd er að skattahækkanir vinstri stjórna mælast sjaldan vel fyrir og hugmyndafræðileg fjárlög þeirra ýta frekar undir vanda en að leysa hann.

Breski fjármálaráðherrann, Rachel Reeves, kynnti í gær (30. okt.), fyrst kvenna, fjárlagafrumvarp stjórnar Verkamannaflokksins sem kom til valda í júlí 2024. Í frumvarpinu er lagt til að skattar hækki um 40 milljarða punda. Helmingur hækkunarinnar fæst með hærri tekjuskatti, þá hækkar fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkisútgjöld aukist um 70 milljarða punda á næstu fimm árum.

Verði breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu samþykktar yrði skattbyrðin, það er hlutfall skatta miðað við verga landsframleiðslu, meðal þess sem gerist hæst í heimi.

Screenshot-2024-10-31-at-09.44.51Svona kynnir teiknari The Telegraph Rachel Reeves á leið í þingið með fjárlagafrumvarpið.

Þegar Reeves kynnti frumvarpið sagði hún: „Sú leið sem ég hef valið í dag er rétta leiðin fyrir land okkar. Það þýðir ekki að valið hafi verið auðvelt.“

Richard Huges er formaður The Office for Budget Responsibility, sjálfstæðs ráðs sem breska fjármálaráðuneytið kostar. Ráðið birtir eigin efnahagsspár og úttektir á opinberum fjármálum. Hann sagði meðal annars um frumvarpið:

„Þetta frumvarp felur í sér einna mestu hækkun útgjalda, skatta og lántöku sem birst hefur í sögu fjárlagagerðar.“

Hér var í gær sagt frá því hvernig Sir Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins hefur verið í frjálsu falli niður vinsældalistann síðan hann varð forsætisráðherra í júlí eftir að Verkamannaflokkurinn var 14 ár utan ríkisstjórnar.

Í umræðum um vandræði Sir Keirs hafa spunaliðar flokks hans gefið til kynna að hagur hans og stjórnar hans myndi vænkast eftir að fjárlagafrumvarpið fyrir 2025 yrði kynnt. Forsætisráðherrann sagði sjálfur fyrr í þessari viku að frumvarpið myndi „varpa ljósi“ á forgangsmál ríkisstjórnarinnar um að tryggja stöðugleika í ríkisfjármálum, bæta opinbera þjónustu og hvetja til fjárfestinga.

Líklegt er að frumvarpið stuðli ekki að neinu af þessu heldur spóli ríkisstjórnin áfram í óvinsældarholunum. Staðreynd er að skattahækkanir vinstri stjórna mælast sjaldan vel fyrir og hugmyndafræðileg fjárlög þeirra ýta frekar undir vanda en að leysa hann. Þetta varð til dæmis raunin þegar franski sósíalistinn François Hollande fór inn á skattahækkunarbrautina eftir að hann var kjörinn forseti 2012. Þá varð landflótti meðal þeirra sem voru skotmörk sósíalistanna.

Vinstrisinnar skilja ekki að lækkun skatta skapar meiri auðlegð í samfélögum en skattakyrkingurinn sem þeim er svo kær.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, sagði í liðinni viku að Samfylkingin ætlaði að hækka tekjuskatt fengi hún nægan styrk í komandi kosningum. Viðskiptablaðið segir að Kristrún hafi lofað 70 milljarða skattahækkunum.

Með því að fylgjast með því sem gerst hefur í Bretlandi eftir valdatöku Verkamannaflokksins má geta sér til um það sem hér verður hljóti Samfylkingin brautargengi í þingkosningunum 30. nóvember 2024.