Braggamálið lifir
Framkvæmdum við braggann er ólokið og á stjórnsýslulegum og pólitískum vettvangi lifir braggamálið – óhjákvæmilega ætti það að koma til kasta umboðsmanns alþingis og héraðssaksóknara.
Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir, ætla að flytja tillögu á borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 15. janúar um að vísa skýrslu innri endurskoðunar um braggamálið til héraðssaksóknara. Með þessu vilja borgarfulltrúarnir „tæma“ ákveðna stjórnsýslulega og pólitíska leið.
Að tæma þessar leiðir er til dæmis nauðsynlegt til að unnt sé að kvarta til umboðsmanns alþingis. Raunar er undarlegt að hann hafi ekki að eigin frumkvæði þegar hafið rannsókn á því stjórnsýslulega hneyksli sem lýst er í skýrslunni. Umboðsmanninum er skylt að hafa eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga.
Af fundi borgarráðs.
Ónauðsynlegt er að bera undir borgarstjórn hvort grunur um lögbrot skuli kærður til héraðssaksóknara. Í skýrslu innri endurskoðunar er staðfest að lög um opinber skjalasöfn voru brotin í braggamálinu. Skv. 47. gr. laganna um meðferð opinberra skjala getur brot á lögunum varðað allt að þriggja ára fangelsisvist. Í bókun í borgarráði fimmtudaginn 10. janúar lýstu sjálfstæðismenn „vonbrigðum“ yfir að meirihlutinn neitaði að ræða þennan þátt skýrslunnar í borgarráði.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, bókaði í borgarráði 10. janúar: „Mjög alvarlegar athugasemdir og ábendingar eru í skýrslunni [frá innri endurskoðun] m.a. um alvarleg lögbrot sem of langt mál er að fara yfir í bókun þessari. Rökstyðjum við þessa ákvörðun okkar [um að kæra beri til héraðssaksóknara] m.a. með 140 gr. og 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjalla um skyldur opinberra starfsmanna í störfum sínum.“
Um þetta mál verður rætt á borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 15. janúar. Afstaða Dags B. Eggertssonar borgarstjóra birtist í setningunni: „Braggamálinu er lokið.“
Þessi fullyrðing borgarstjóra er röng í öllu tilliti og reist á óskhyggju – afneituninni sem einkennt hefur stjórn hans og Samfylkingarinnar á Reykjavíkurborg. Framkvæmdum við braggann er ólokið og á stjórnsýslulegum og pólitískum vettvangi lifir braggamálið – óhjákvæmilega ætti það að koma til kasta umboðsmanns alþingis og héraðssaksóknara.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar (2005 til 2009) og borgarstjóri, segir (á FB 12. janúar) það til marks um „ljóta“ pólitík að minnihluti borgarstjórnar vilji að allir þræðir braggamálsins séu raktir. Jón Gnarr, fyrrv. borgarstjóri (2010 til 2014) kennir (á FB 23. des. 2018) kröfuna um að málið sé rætt og upplýst við „miskunnarleysi“.
Að fara með pólitísk og stjórnsýsluleg mál
inn á svið tilfinninga er aðferð sem Donald Trump Bandaríkjaforseti beitir mjög
um þessar mundir. Að hún dugi til að bjarga Degi B. og meirihlutanum í braggamálinu
kemur í ljós.