16.4.2024 10:47

Børsen brennur í Kaupmannahöfn

Kristján 4. fylgdist náið með framkvæmdum við Børsbygginguna fyrir 400 árum og sá til þess að hún fengi á sig konunglega reisn.

Nú þegar fimm ár eru liðin frá því að í beinni útsendingu mátti fylgjast með brunanum sögulega í Notre Dame í París (15. apríl 2019) má í dag, 16. apríl 2024, fylgjast með beinni útsendingu frá sögulegum bruna í Børsen, kauphöllinni, í Kaupmannahöfn sem hófst um klukkan 07.30 að dönskum tíma (05.30 ísl. tíma) og varð eldurinn fljótt stjórnlaus. Arkitektúrritstjóri Berlingske kemst þannig að orði að líkja megi Børsbyggingunni við Notre Dame þegar litið sé á tjónið frá sjónarhóli byggingarlistarinnar.

Kauphöllin var reist á árunum 1619 til 1623 í tíð Kristjáns 4. konungs sem ríkti frá 1588 til 1648 þegar hann andaðist 70 ára. Hann sat á konungsstóli í 59 ár og 330 daga, lengur en nokkur annar norrænn konungur.

104449035

Børsbyggingin stendur steinsnar frá Kristjánsborgarhöll, hún er í hollenskum endurreisnarstíl. Kristján 4. fylgdist náið með framkvæmdum við húsið og sá til þess að það fengi á sig konunglega reisn. Rauður múrsteinn, glæsileiki, hvelfingar og og turnspíra draga að sér athygli og eru þekkt kennileiti í Kaupmannahöfn. Nú er turninn fallinn með þakinu.

Sögulega minnir kauphöllin á þá tíð þegar viðskipti ruddu sér til rúms í dönsku samfélagi. Með tilkomu hennar hófst nýr tími verslunar og velmegunar og Kaupmannahöfn festist í sessi sem mikilvæg miðstöð alþjóðlegra viðskipta. Í 400 ár hefur kauphöllin átt ríkan þátt í efnahagslegri og stjórnmálalegri þróun Danmerkur. Dansk Erhverv á bygginguna og þar verða teknar ákvarðanir um endurreisn verði ráðist í hana.

Árið 1974 flutti kauphallarstarfsemi úr byggingunni í ný húsakynni í Rødovre en upphaflegu Børsbyggingunni var breytt í ráðstefnu- og menningarmiðstöð.

Eftir að eldurinn kom upp mátti sjá marga hlaupa til af götunni til að bjarga listaverkum af veggjum byggingarinnar og í danska sjónvarpinu hefur verið sýnt beint frá því þegar starfsmenn þjóðminjasafnsins vinna að því að búa um listaverkin og flytja þau í öruggar geymslur undir lögregluvernd. Óljóst er nú hve mörg málverk og listaverk hafa orðið eldinum að bráð. Eitt þeirra verka sem ekki tókst að bjarga var stytta af Kristjáni 4. sem stóð inni í byggingunni.

Unnið hefur verið að endurbótum á byggingunni og er tjaldað í kringum hana vegna þess. Hvort eldur hafi kviknað út frá viðgerðarstarfi eins og var í Notre Dame hefur ekki verið upplýst.

Lögreglan í Kaupmannahöfn segir að það taki tvo til þrjá daga að leggja mat á brunann og upptök hans.

Í leiðara sem birtist á vefsíðu Berlingske 16. apríl segir að það sé verkefni dönsku þjóðarinnar að endurreisa Børsbygginguna. Nú eigi að stefna að því að endurgera turn hennar í eins nákvæmri eftirgerð og unnt sé. Kalla verði til dugmestu arkitekta landsins til að taka erfiðar ákvarðanir um hvernig reisa megi bygginguna sem næst upphaflegri gerð fyrir 400 árum. Í dag eigi að gráta það sem horfið sé en á morgun skuli hafist handa við endurreisnina.