25.7.2019 9:29

Boris myndar brexit-stjórn

Um brexit án samnings verða átökin innan Íhaldsflokksins, milli flokka og milli nýrrar ríkisstjórnar og meirihluta þingsins.

Boris Johnson tók strax og skipulega til hendi miðvikudaginn 24. júlí eftir að hafa tekið við embætti forsætisráðherra og hreinsaði til í ríkisstjórn Íhaldsflokksins. Ekki var um neina uppstokkun á ráðherrum að ræða heldur massacre (fjöldamorð) eins og eitt fórnarlambanna orðaði það. Á fyrstu klukkustundunum rak hann 17 ráðherra.

Talsmenn Johnsons segja þegar fundið er að framgöngu hans og stjórnarháttum að helsti kostur hans sé að safna að sér vel hæfu fólki og deila til þess ábyrgð og valdi, hann sé ekki maður smáatriðanna heldur eldmóðsins sem hann blási öðrum í brjóst.

Hér hefur nokkrum sinnum verið sýnd í ríkissjónvarpinu leikin heimildarmynd um brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem Benedict Cumberbatch leikur Dominic Cummings sem kynntur er til sögunnar sem heilinn á bakvið sigur útgöngusinna þvert á allar spár.

Johnson hefur nú ráðið Cummings til starfa hjá sér og hann heldur einnig Michael Gove í ríkisstjórninni. Þessir þrír störfuðu náið saman í brexit-baráttunni.

Þótt náin tengsl Johnsons og Goves hafi rofnað, að minnsta kosti út á við, vegna ólíkra viðhorfa til stefnu Theresu May, hafa þeir enn sameiginlega hagsmuna af því að til brexit komi.

XVMf9946a46-ae2c-11e9-a848-f43d9799c2caElísabet II felur Boris Johnson embætti forsætisráðherra 24. júlí 2019.

Gove hefur það hlutverk innan ríkisstjórnarinnar að búa í haginn fyrir brexit án samnings við ESB. Áður en Cummings tók að sér að skipuleggja brexit-baráttuna árið 2016 starfaði hann fyrir Gove. Það verði nú hlutverk Cummings að sanna og tryggja að hugmyndin um úrsögn án samnings njóti pólitísks stuðnings. Þar er við meirihluta þingmanna að eiga.

Um brexit án samnings verða átökin innan Íhaldsflokksins, milli flokka og milli nýrrar ríkisstjórnar og meirihluta þingsins. Án pólitískrar lausnar milli kjörinna fulltrúa hlýtur Boris Johnson að snúa sér til þjóðarinnar með því að rjúfa þing og boða til kosninga.