6.9.2022 8:31

Boris biðst lausnar

Boris verður líklega talinn réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma en sjálfum sér verstur.

Boris Johnson hittir drottninguna í dag (6. september) og afhendir henni lausnarbeiðni sína sem forsætisráðherra í Balmoral kastala í Skotlandi. Elísabet II. dvelst þar yfir sumarmánuðina og hefur háöldruð hægt um sig þótt hún sinni enn skyldum sínum. Liz Truss, nýkjörin leiðtogi Íhaldsflokksins, með stuðningi um 57% almennra flokksmanna (81.236 atkv.) tekur við keflinu af Boris.

BoindexBoris Johnson kveður Downing stræti 10 þriðjiudaginn 6. september 2022..

Hann nefndi þrjú meginmál þegar hann kvaddi: að Brexit hefði gengið eftir, að á innan við sex mánuðum hefði terkist að bólusetja 70% Breta gegn kórónuveirunni, hraðar en í nokkru sambærilegu landi, og að með hraði hefðu Bretar látið hetjuher Úkraínumanna í té vopn. Á þann hátt hefði hugsanlega tekist að breyta stefnu mesta stríðs í Evrópu í áttatíu ár.

Franska blaðið Le Figaro leitar daglega á vefsíðu sinni álits lesenda á einhverju málefni líðandi stundar. Í dag er spurt hvort Boris Johnson hafi verið góður forsætisráðherra fyrir Breta. Yfirgnæfandi meirihluti, um 80%, segir nei.

Boris verður líklega talinn réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma en sjálfum sér verstur. Hann ætlar sjálfur að skrifa sögu sína sem forsætisráðherra og kemur hún út fyrir jól, segja blöðin. Hann er aðþrengdur fjárhagslega.