5.2.2020 12:47

Borgin hefur Hörpu að féþúfu

Þegar að því var unnið á sínum tíma að hrinda hugmyndinni um tónlistarhús á framkvæmdastig datt örugglega engum í hug að Harpa yrði að féþúfu vegna fasteignaskatta.

Þegar að því var unnið á sínum tíma að hrinda hugmyndinni um tónlistarhús á framkvæmdastig datt örugglega engum í hug að Harpa yrði að féþúfu vegna fasteignaskatta. Þannig er þó á málum haldið af stjórnendum Reykjavíkurborgar og þeim sem búa til fasteignaskattareglur.

HaroaHalldór Guðmundsson var forstjóri Hörpu um nokkurra ára skeið áður en hann fór til Noregs og stjórnaði þátttöku Norðmanna í bókamessunni miklu í Frankfurt í fyrra. Hann skrifar pistil á Facebook mánudaginn 3. febrúar undir fyrirsögninni: Kafka við Sæbrautina - eða endurminning um Hörpu.

Halldór segir þar frá álögum borgaryfirvalda vegna Hörpu, meðal annars þetta:

„Frægust af þeim álögum eru náttúrlega fasteignagjöldin. Þegar ég var þar húsvörður borgaði Harpa röska milljón á dag, eða sem nemur einni Eldborgarleigu, þrisvar til fjórum sinnum meira á fermeter en önnur stórhýsi á landinu (t.d. Smáralind, Kringlan eða Leifsstöð). Það hefur verið í sakleysi þess sem var nýbyrjaður sem ég spurði eigendur hvort ekki mætti breyta því. Jú, var svarið, þú getur farið í mál við okkur. Svo í nokkur ár rak Harpa mál á hendur eigendum sínum, stórt og dýrt og þvælið gegn harðsnúinni vörn, í þeim eina tilgangi að húsið mætti verða rekstrarhæft. En rekstrarhæfi og sjálfbærni eru á hinn bóginn þau skilyrði sem sömu eigendur setja húsinu. Allt tók þetta tímann sinn, en á endanum vann Harpa málið fyrir Hæstarétti sem létti reksturinn um skeið. En það var skammvinn sæla og fljótlega fundu tollheimtumenn leiðir til að halda álögum á húsið svo gott sem óbreyttum, hvað sem leið sigrum Hörpu fyrir dómstólum. Er nema von að þá hafi mér ekki hugnast að standa í þessu lengur?“

Í athugasemd við færslu Halldórs segir Vilhjálmur Egilsson, fráfarandi rektor háskólans á Bifröst,

„Vondir embættismenn geta verið samfélaginu óheyrilega dýrir eins og að góðir embættismenn geta nú gert mikið gagn. Mér fannst skrautlegast í þessu öllu þegar embættismaðurinn sem hafði tapað fasteignagjaldsmálinu í Hæstarétti hefndi sín með því að búa til sérstakan flokk fyrir álagningu fasteignagjalda. Áður voru þeir tveir; skrifstofu- og verslunarhúsnæði og svo iðnaðarhúsnæði. Nú eru gjaldflokkar orðnir þrír; skrifstofu- og verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði og þriðji flokkurinn, ráðstefnu- og tónlistarhús þar sem Harpa er eina fasteignin í þeim flokki. Þessi embættismaður er samfélaginu sannarlega dýr.“

Skattpíningin á Hörpu er hneyksli. Hún spillir fyrir starfsemi í húsinu og minnkar aðdráttarafl þess. Hún brýtur í bága við ákvarðanir um tilgang hússins. Að kenna embættismönnum um skattpíninguna er einföldun. Þarna bera stjórnmálamenn ábyrgð, að lokum alþingi sem setur rammann um fasteignaskattareglur.