26.9.2018 10:25

Borgaryfirvöld gegn Víkurkirkjugarði

Óskiljanlegt er að borgaryfirvöld blási á allar ábendingar um að sýna beri fornum grafreit virðingu.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, stórmeistarinn Friðrik Ólafsson, Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri og myndlistarmaðurinn Erró heiðursborgarar Reykjavíkur rituðu undir áskorun sem var afhent

Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanni borgarráðs, þriðjudaginn 25. september. Skorað er á forráðamenn borgarstjórnar að stöðva fyrirhugaða hótelbyggingu í Víkurgarði, (Fógetagarði), gamla kirkjugarðinum á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Þar var síðast jarðsett árin 1882 og 1883 og þar er að finna elsta gróðursetta tré borgarinnar, Silfurreyni frá árinu 1884. Ætlunin er að rjúfa helgi kirkjugarðsins og gera garðinn að hluta anddyris hótelsins.

V-1-1024x768Áshildur Haraldsdóttir tók þessa mynd í ráðhúsinu 25. september þegar þrír af fjórum heiðursborgurum Reykjavíkur, Friðrik Ólafsson, Vigdis Finnbogadóttir og Þorgerður Ingólfsdóttir afhentu skjal til stuðnings Víkurkirkjugarði.

Um miðjan sjöunda áratug 20. aldar voru áform uppi um að stækka Landsímahúsið út í garðinn á sama veg og gert er núna. Þá stöðvaði ríkisstjórnin framkvæmdina og reist var minni nýbygging án kjallara við húsið. Hún hefur nú verið rifin í þágu hótelsins eins og myndin sýnir.

Img_6491Á myndinni sést hvar nýbygging hefur verið rifin af Landsímahúsinu og þarna er hornið þar sem ætlunin er að ráðast á Víkurkirkjugarðinn, áform eru um að við garðinn verði anddyri hótelsins.

Borgaryfirvöld vísa til skipulags sem gert var 1987-1988 þar sem fyrir mistök og líklega vanþekkingu á sögu reitsins eða lögum var gert ráð fyrir byggingarreit í kirkjugarðinum. Þrátt fyrir mótmæli árum saman hafa borgaryfirvöld einsett sér að hluti kirkjugarðsins skuli lagður undir hótel. Í áskorun heiðursborgaranna segir meðal annars:

 „Sagt er að í hótelinu verði 145 herbergi. Þarna ráða peningar gjörðum, ekki menning og saga. Hagnaðarvonin og stundarhagsmunir ryðja burt virðingunni og helginni. Og þá tekur óhjákvæmilega við uppblástur mennsku og menningar. Það skapar engum gæfu.Við skorum því á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta þegar í stað af fyrirhuguðum áformum, sem mundu fyrirsjáanlega valda óbætanlegum spjöllum á þessum viðkvæma og söguhelga reit í hjarta höfuðborgarinnar. Við erum þess fullviss að afkomendur okkar muni um alla framtíð verða þakklátir ef svo giftusamlega tækist til að horfið yrði frá þessum áformum og Víkurgarði þyrmt.“

Óskiljanlegt er að borgaryfirvöld blási á allar ábendingar um að sýna beri fornum grafreit virðingu. Það er talið til marks um menningarstig þjóða hvaða virðingu þær sýna forfeðrum sínum. Þessi skipulega aðför að Víkurkirkjugarði er aðstandendum hennar til skammar. Hér er um það að ræða að taka ákvörðun í þágu „mennsku og menningar“. Að það sé borgarstjóra og formanni borgarráðs um megn er niðurstaða fundarins í ráðhúsinu 25. september megi marka fréttir af honum.