Borgarmeirihluti í blekkingarheimi
Formaður borgarráðs les ekki fundargögn komi þau henni illa og skammar svo borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vitna í þau.
Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjaíkurborgar, skrifar undir skjal sem sent var alþingi sem umsögn um frumvörp til laga, lögð fram á alþingi 21. apríl 2020 til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldur kórónaveiru. Þar segir meðal annars:
„Ef aðeins hefði verið um að ræða skammvinnan vanda, 3 til 6 mánaða niðursveiflu með skjótu bataferli, hefði mögulega dugað að ríkið styddi við lausn fjármögnunarvandans með lánveitingum á hagkvæmum kjörum. Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum.“
Þegar Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, benti á þessa lýsingu á fjárhagsstöðu borgarinnar í umsögn sviðsstjórans sem kynnt hafði verið í borgarráði brást Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, ókvæða við orðum Hildar og sagði hana hafa sett „met í dylgjum og ósannindum“.
Á borgarstjórnarfundi Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds (mbl.is/Hari).
Í grein á visir.is fullyrti Þórdís Lóa að borgin væri „vel rekin, með traustan og góðan fjárhag“. Taldi hún að opinber fjármál yrðu „því að einhverri þráhyggju [sjálfstæðismanna] sem verður sérstaklega vandræðaleg þegar að aðrir flokkar sýna að þeim er treystandi fyrir fjármálum. Þessa þráhyggju endurómaði Hildur, því línuna hefur hún jú lært í Valhöll, en nær ekki að hafa rétt eftir í einni einustu setningu“.
Eins og Hildur bendir á í svari sínu á Facebook við skömmum Þórdísar Lóu „afhjúpar [hún] grímulaust, ábyrgðarleysi sitt gagnvart fjármálum Reykjavíkurborgar“ og „kynnir sér greinilega ekki eigin fundargögn“ í borgarráði.
Þórdís Lóa endurómar í grein sinni hrokann í meirihluta borgarstjórnar gagnvart öllum sem benda á augljósa veikleika í rekstri borgarinnar undir hennar stjórn og Dags B. Eggertssonar. Af hálfu pírata í meirihlutanum er ráðist með fúkyrðum að þeim sem gagnrýna aðförina að miðborginni.
Dagur B. borgarstjóri sýnir sig aðeins vegna „mjúku“ málanna. Hann var til dæmis í löngu rúv-viðtali að loknum 17. júní vegna „skoðanakönnunar“ sem hann framkvæmdi á Twitter og sá að ef til vill ætti að færa þjóðhátíðarhöldin út í hverfin. Það hefði heppnast svo vel vegna COVID-19-faraldursins að þessu sinni. Það skyldi þó ekki vera sjálfgert að borgarbúar fögnuðu í eigin hverfum? Þeir eru hættir að fara í miðborgina.
Formaður borgarráðs les ekki fundargögn komi þau henni illa og skammar svo borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vitna í þau. Segir þetta ekki allt sem segja þarf um blekkingarheim æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar?