Borgarlína um land allt
Það kemur í hlut fulltrúa Flokks fólksins, Eyjólfs Ármannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að laga samgönguáætlun að „hugmyndafræði Borgarlínunnar“ á landsvísu.
Bloggarinn Páll Vilhjálmsson vekur máls á því í pistli 27. desember að þess sé að vænta að samfylkingarmaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson, nýskipaður loftslagsráðherra, hljóti að gefa út reglugerð nú milli jóla og nýárs sem banni nýskráningu bensínbíla á árinu 2025. Það sé rökrétt í ljósi greinar og kosningaloforðs sem Jóhann Páll gaf í grein í Kjarnanum sáluga 4. september 2021 í tilefni þingkosninga þá um haustið.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (mynd: stjórnarráðið.is).
Greinin bar fyrirsögnina: Sýndarmennska eða alvara í loftslagsmálum? Þar bar Jóhann Páll lof á loftslagsstefnu Samfylkingarinnar og sagði hana mun róttækari en stefnu Vinstri grænna (VG). Hann komst meðal annars svo að orði:
„Samfylkingin stendur fyrir einhverjum stærstu loftslagsaðgerðum á Íslandi með þéttingarstefnunni í borginni, Græna planinu og Borgarlínu.“ Vildi hann að lesendur áttuðu sig á því að þannig yrði að málum staðið yrði fulltrúa flokksins treyst fyrir loftslagsmálum í ríkisstjórn.
Í 7. tölulið sáttmála ríkisstjórnar samfylkingarkonunnar Kristrúnar Frostadóttur segir: „Ríkisstjórnin mun ýta undir orkuskipti í samgöngum og iðnaði, vinna gegn losun frá landi og greiða götu tæknilausna og nýsköpunar á sviði loftslagsmála.“
Í ljósi þess að flokksystkinin og samstarfsfólkið Kristrún og Jóhann Páll hafa sameiginlega barist undir þeim merkjum að Samfylkingin verði að ávinna sér og stefnu sinni trúverðugleika til að njóta trausts ætti þeim að vera sérstakt kappsmál að fylgja því fram í loftslagsmálum. Í stefnu Samfylkingarinnar um þann málaflokk segir meðal annars:
„Samfylkingin vill stóraukinn stuðning við uppbyggingu rafhleðslu-, metan- og vetnisstöðva um allt land svo raunhæft verði að hætta nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla frá og með árinu 2025. Einnig er brýnt að mótuð verði raunhæf en metnaðarfull áætlun um að hætta nýskráningu flutningabíla, hópferðabíla og vinnuvéla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti.“
Nú er spurningin hvort þau taki höndum saman um að framkvæma þetta eða hvort þau velji þann kost að fara undan í flæmingi. Þau reyni að skýra hvers vegna ekki eigi að taka mark á þessari stefnu flokksins eftir að hann fær bæði forsæti í ríkisstjórn og forystu í loftslagsráðuneytinu.
Þá segir einnig í stefnu Samfylkingarinnar:
„Samfylkingin vill að hugmyndafræði Borgarlínunnar verði nýtt til uppbyggingar stærra samgöngunets sem þjónar landinu öllu. Þannig verður einfalt, aðgengilegt og þægilegt að ferðast um Ísland án þess að eiga eða leigja einkabíl.“
Það kemur í hlut fulltrúa Flokks fólksins, Eyjólfs Ármannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að laga samgönguáætlun að „hugmyndafræði Borgarlínunnar“ á landsvísu. Hann getur farið í smiðju til nýkjörins þingmanns og flokkssystur sinnar, Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa, og spurt hana um ágæti borgarlínunnar og hvernig útfæra skuli hana um allt land.