4.4.2017 10:53

Borgarfulltrúi Pírata veðjar á að Ólafur Ólafsson breytist

Hvar hefur birst fjárhagslegt mat á þessu mikla dæmi? Ólafur Ólafsson greiðir innan við eina milljón fyrir hverja íbúð sem Reykjavíkurborg gerir honum kleift að reisa. Hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu er lóðarverð svona lágt?

 

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar  mánudaginn 3. apríl á visir.is fróðlega úttekt um umsvif Ólafs Ólafssonar fjárfestis og félaga tengdum honum við umfangsmikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og hótela á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.  Meðal verkefna félaga Ólaf er nýtt hverfi við Elliðaárvog, hótel þar sem áður voru höfuðstöðvar Olíufélagsins við Suðurlandsbraut, íbúðir og hótel á Tryggvagötureitnum en framkvæmdaaðilar þar rifu meðal annars Exeter-húsið í leyfisleysi. Þá á Ólafur einnig aðild að nýbyggingum á Héðinsreit í Ánanaustum í Reykjavík.

Fyrir nokkrum dögum framseldi Reykjavíkurborg félagi Ólafs lóð fyrir 332 íbúðir á Gelgjutanga við Elliðaárvog fyrir tæpar 326 m. kr. Byggingar þarna, alls 1.100 til 1.300 íbúðir hindra að Sundabraut verði lögð á hagkvæmasta hátt. 

Nú er komið til sögunnar það sem kallað er „innviðagjald“. Þetta er gjald sem byggingarverktakar greiða umfram lögbundin gjöld eins og gatnagerðargjöld. Félag Ólafs Ólafssonar ætlar að greiða þetta gjald og einnig leggja fé til listaverka á svæðinu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ritaði undir samningana við félag Ólafs. Hann segir að geri borgin ekki slíka samninga hagnist lóðareigendur á uppbyggingu svæðisins en borgin sitji eftir með kostnað vegna nauðsynlegrar innviðauppbyggingar. Af þessum orðum má ráða að Dagur B. sé í raun að innheimta opinbert fyrirgreiðslufé með þessum samningi við félag Ólafs. Þá er samningurinn við Ólaf einnig fegraður með því að 20% þess sem hann byggir verði nýtt í félagslegum tilgangi. 

Hvar hefur birst fjárhagslegt mat á þessu mikla dæmi? Ólafur Ólafsson greiðir innan við eina milljón fyrir hverja íbúð sem Reykjavíkurborg gerir honum kleift að reisa. Hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu er lóðarverð svona lágt?

F1C1ED4EAB03C339E50FF96BC82813A089ED6F0FEDE85C38A9EED6C5E85805AD_713x0

Hluti Vogabyggðar. Gelgjutanga má sjá efst vinstra megin á myndinni sem er frá Reykjavíkurborg.

Píratar mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og standa að baki Degi B. Eggertssyni við gerð samningsins um Gelgjutanga við Ólaf Ólafsson. Ritað var undir samninginn skömmu áður en upplýst var um blekkingar Ólafs vegna kaupanna á Búnaðarbankanum.

Halldór Auðar Svansson er borgarfulltrúi Pírata. Þriðjudaginn 4. apríl birti hann opið bréf til Ólafs Ólafssonar. Þar segir:

„Nú sit ég í borgarstjórn þar sem við erum að sýsla með skipulagningu á húsnæðisuppbyggingu og samningsgerð þar sem reynt er að gæta hagsmuna borgarinnar þannig að þeir fari einhvern veginn saman við hagsmuni fjármagnsins. Töldum okkur hafa náð bara nokkuð langt þar en þegar fréttir berast af þínum hluta í málinu er stór hluti almennings bara ekki alveg sammála. Það skil ég reyndar ágætlega, ekki síst þegar svo vill til að þetta gerist um svipað leyti og skýrsla kemur út sem flettir ofan af ótrúlega ósvífinni fléttu þinni við kaupin á Búnaðarbankanum - og þú sýnir hefðbundin viðbrögð afneitunar. Það hefur töluvert gengið á og ég hef persónulega staðið í ströngu á ýmsum vettvangi við að fara yfir málin, svara fyrir og takast á við fólk. Það er allt í lagi, ég þoli það alveg. Þetta fylgir starfinu.“

Halldór segist hafa farið „út í pólitík til að breyta“. Eitthvað hafi þokast til betri vegar en ekki allt: 

„Vofur fortíðar voma enn yfir og þú ert ein þeirra. Sennilega sú stærsta og hrikalegasta. Þannig er það bara.

Stígðu fram úr skugganum og tjáðu þig. Prófaðu að vera einlægur svona einu sinni. Ég trúi því að fólk geti breyst og kannski hefur þú alveg breyst. Sýndu það þá. Ef ekki - þá mun ekkert breytast hér á landi í raun og veru.

Þú átt leik Ólafur.“

Halldór Auðar Svansson veðjar sem sagt á að Ólafur Ólafsson breytist. Halldór ætlar að styðja við Dag B. Eggertsson áfram og sjá til þess að Ólafur geti áfram látið að sér kveða í fasteignalífi borgar þar sem markvisst hefur verið unnið gegn úthlutun lóða til almennings og skapað kjörlendi fyrir þá sem greiða opinbert fyrirgreiðslufé með innviðagjaldi.