24.6.2023 10:25

Borgarastríð í Rússlandi

Pútin segist halda uppi lögum í landinu og ætla að brjóta Prígósjín á bak aftur og refsa honum enda hefði hann gerst sekur um landráð og rekið hníf í bakið á rússnesku þjóðinni.


Þegar þetta er skrifað að morgni laugardagsins 24. júní 2023 hefur Jevgeníj Prigósjín, eigandi Wagner-málaliðanna í Rússlandi, staðið við hótanir sínar að kvöldi föstudagsins 23. júní um að stofna til vopnaðra átaka við rússnesk stjórnvöld, einkum Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og yfirstjórn hersins, sjá hér.

Fréttir nú herma að Wagner-liðar hafi lagt undir sig milljón manna borgina Rostov við Don í suðvesturhluta Rússlands skammt frá Azovhafi en handan þess er Úkraína og hafnarborgin Mariupol sem Rússar rústuðu í fyrra. Birt er mynd af Prígósjín sem sögð er tekin í höfuðstöðvum suðurherstjórnar rússneska hersins í Rostov. Hann situr á milli háttsettra herforingja og setur þeim úrslitakosti.

E0aa1b98-63f7-4e10-924a-62bc58892612Vopnaðir hermenn gæta öryggis á götum Moakvu laugardaginn 24. júní 2023.,

Vestrænar fréttastofur segjast ekki geta staðfest neinar fréttir frá Rostov en borgarstjórinn þar hvetur borgarbúa til að halda sig frá miðborginni.

Hitt er staðfest og sýnt beint í sjónvarpi um heim allan að Vladimir Pútin Rússlandsforseti ávarpaði rússnesku þjóðina að morgni 24. júní og hvatti hana til hollustu við sig og her landsins, það yrði að halda uppi lögum í landinu, hann mundi gera það og brjóta Prígósjín á bak aftur og refsa honum enda hefði hann gerst sekur um landráð og rekið hníf í bakið á rússnesku þjóðinni.

Prígósjín segist sækja fram í nafni réttvísinnar, logið hafi verið að þjóðinni til að stofna til tilefnislauss stríðs við Úkraínumenn. Prígósjín gengur þannig ekki aðeins á hólm við Pútin með því að beita her sínum heldur afhjúpar hann einnig lygar forsetans um stríðið sem kostað hefur mörg hundruð þúsund rússneska hermenn lífið.

Að morgni laugardagsins flutti Euronews-fréttastofan fréttir af átökum rússneskra hermanna við uppreisnarmenn í Voronezh-héraði sem á landamæri að Úkraínu um 600 km fyrir sunnan Moskvu. Alexander Gusev héraðsstjóri staðfesti þetta þegar hann lýsti and-hryðjuverkaaðgerðum rússneskra öryggissveita í héraðinu.

Rússneski auðmaðurinn og útlaginn Mikhail Khodorkovskíj hvatti til stuðnings við Wagner-foringjann Prígósjín. Hann sagði á Twitter að morgni 24. júní „hann [Prígósjín] er enginn bandamaður okkar og þetta verður aðeins tímabundinn stuðningur með skilyrðum en sókn hans er risahögg gegn lögmæti Pútíns og allt sem tvístrar stjórn hans er gott“.

Ekkert sambærilegt hefur gerst í rússneskum stjórnmálum síðan 1991 þegar öryggislögreglan KGB og herinn reyndu að steypa sovéska forsetanum Mikhaíl Gorbatsjov af stóli. Þeir höfðu hann í haldi í þrjá sólarhringa en skorti þrek til að fullkomna verk sitt. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til kommúnistaflokkurinn og Sovétríkin urðu að engu.

Nú eru aðrir tímar og rússneski forsetinn hefur virkjað herinn til stríðsaðgerða sem skila minni árangri en hann vonaði og eru undirrót vanda hans. Borgarastríð á slíkum tíma yrði olía á eld sem engu eirir.