11.7.2017 10:15

Borg án pólitískrar forystu

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er komið að kjarna þess lærdóms sem draga má af mengunarslysinu sem varð skolphreinsikerfi Reykjavíkurborgar um miðjan júní og er ekki lokið enn.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er komið að kjarna þess lærdóms sem draga má af mengunarslysinu sem varð skolphreinsikerfi Reykjavíkurborgar um miðjan júní og er ekki lokið enn. Hér er þetta kallað slys þótt skýrst hafi að það var ástetningur stjórnenda Veitna, undirfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur (OR), að þegja um málið, beita þöggunaraðferð í von um að komast upp með að dæla 750 sekúndulítrum af óhreinsuðu skolpi í hafið við Faxaskjól.

Skýringarnar sem gefnar voru fyrst eftir að fréttir bárust um málið (5. júlí) lutu allar að því að gera sem minnst úr því. Af orðum forstjóra Veitna mátti ráða að þetta gerðist svo oft að ekki þyrfti að tilkynna atvik af þessu tagi þrátt fyrir skýr lagaákvæði um skyldu til þess. Formaður borgarráðs kaus að benda á að varahlutir í hreinsikerfið væru ekki til í hillum og gaf þar með til kynna að menn yrðu að sætta sig við ástandið þótt „heppilegra“ hefði verið að segja almenningi frá því.

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, sagði að menn mættu ekki fara í skotgrafirnar vegna málsins! Þetta er sú sama Líf sem fyrir nokkrum vikum fór í skotgrafirnar og vildi láta bera undir sig hvaða búnað lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætti að hafa til að gæta öryggis borgaranna. Hún krafðist samráðs af hálfu lögreglustjóra – hún sagðist þó ekki hafa haft hugmynd um neitt vegna mengunarslyss á ábyrgð borgarstjórnar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var utangátta og reyndi að skella skuldinni á Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmann í OR. Hann hefði átt að segja sér frá stjórnlausu flæði á vegum Veitna!

Í leiðara Morgunblaðsins segir:

„Að mati embættismannanna [borgarinnar] voru það „verkferlar“ sem brugðust vikum saman. Þessir verkferlar hafa ekki sést eða heyrst áður. En embættismennirnir sögðust búnir að gera upp við sig að skoða þessa verkferla. Hvaða óráðshjal er þetta eiginlega?

Strendur borgarinnar eru útbíaðar í saur og viðbjóði vikum saman og það eru „verkferlar“ sem hafa ákveðið að almenningur sé ekki varaður við! Síðustu árin hefur stjórnkerfi borgarinnar margoft verið splundrað í allar áttir. Sífellt fleiri og óljósari „svið“ hafa verið stofnuð um verk sem áður lutu ljósri ábyrgð. Málaflokkar hafa hvað eftir annað verið hlutaðir í sundur og ólíkum þáttum skeytt saman, þótt enginn ávinningur hafi verið af því. Afleiðingin er ekki aðeins sú að borgaryfirvöldin sjálf hafa tapað þræði. Þau máttu ekki við því. Eftir því sem samhengi stjórnsýslunnar hefur orðið óljósara hefur þjónustan við borgarbúa versnað jafnt og þétt um leið og kostnaður við hana hefur farið úr böndum.[...]

Í áratugi hitti borgarstjórinn tuttugu æðstu embættismenn sína, sem höfðu þræði um allt borgarkerfið, tvisvar í viku, árið um kring. Stjórnskipulag borgarinnar var öfundarefni, ekki síst fyrir ríkið. Það hefði engum embættismanni dottið í hug að láta stórmál, eins það sem hér var nefnt, ónefnt á fundi með borgarstjóra. Og þeir borgarstjórar sem tóku starf sitt alvarlega hefðu á sama fundi lagt drög að viðbragðsáætlun sem birt hefði verið ekki seinna en strax.

Núverandi borgaryfirvöld halda að borgin snúist um þá sjálfa. Reykjavíkurborg á að gæta að því umfram allt annað að veita borgarbúum fullkomna þjónustu með hagkvæmum hætti, tryggja hreinlæti, snyrtimennsku, öryggi og framtíð, svo sem með lóðaframboði og öflugri þjónustu fyrir unga sem aldna. Það tekst ekki á meðan stór hluti fjármunanna sem úr er að spila hverfur í óráðsíu og æðstu menn borgarinnar hafa ekki áhuga á öðru en gervivandamálum sem snerta ekki borgarbúa beint. Hneykslið, sem borgarbúar hafa þurft að horfa upp á og fundið fnykinn af að undanförnu er til komið vegna þess að yfirvöldin í borginni þekkja hvorki verkefni sitt né vitjunartíma og myndu ekki valda því, þótt hin einfalda mynd rynni upp fyrir þeim.

Slíka menn þarf að finna í fjöru sem fyrst. Það er ekki kræsilegt en hjá því verður ekki komist.“