7.1.2023 10:49

Borg án bílastæða

Varaborgarfulltrúi Viðreisnar, Pawel Bartoszek, lýsir „nýju bílastæðastefnunni“ þar sem ekki er lengur „gert ráð fyrir lágmarksfjölda bílastæða heldur frekar hámarksfjölda“.

Stjórnendur engrar borgar eða sveitarfélags í veröldinni, utan ofríkislanda, leggur sig jafnmikið fram um að laga íbúa að eigin geðþótta og Reykvíkingar mega þola – nú af vaxandi þunga.

Nú eru náttúruöflin notuð til að vekja sektarkennd meðal íbúanna. Þeir hagi sér á þann veg að mengunarský myndist yfir borginni í frosti og stillum. Þeir aki um á dísilbílum með nagladekkjum og geri þannig aðför af lífi og heilsu samborgara sinna.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í þessu máli eins og öðrum að borgina skorti rýmri eða annars konar heimild frá ríkisvaldinu. Hann hafi ekki nægilegt boðvald til að setja borgarbúum þær skorður við notkun fjölskyldubílsins sem hann vilji. Bílandstæðingum í borgarstjórn dugði ekki lengi að hafa fjölskyldubílinn innilokaðan í snjósköflum með því að tefja fyrir hreinsun húsagatna. Borgarbúar andmæltu.

SnorrabrautMeð aðstoð Viðreisnar á þessu kjörtímabili og því síðasta hefur fjandmönnum fjölskyldubílsins á hinn bóginn tekist að fá samþykkta grunnstefnu í skipulagsmálum borgarinnar til að gera einstakar götur og síðan hverfi bíllaus.

Í Morgunblaðinu í dag (7. janúar) lýsir varaborgarfulltrúi Viðreisnar, Pawel Bartoszek, vara­formaður um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs, „nýju bílastæðastefnunni“ þar sem ekki sé lengur „gert ráð fyrir lágmarksfjölda bílastæða heldur frekar hámarksfjölda“.

Lykillinn að því að stefnan gangi upp er að til sögunnar komi „hágæðaalmenningssamgöngur“, nálægt þeim muni bílastæðafjöldi fara „nokkuð langt niður“. Íbúar fái ekki eyrnamerkt stæði heldur geti þeir notað aðra „samgöngumáta“. Þá geti húsfélög hvatt íbúa til að „samnýta bíla og bílastæði“ til dæmis með „sameiginlegum bílastæðahúsum“. Hvar er rými fyriur þau?

Pawel segir:„Þetta er grunnstefnan. Það er ekki lengur gert ráð fyrir að lágmarki einu stæði á íbúð heldur færri“.

Rætt er við Pawel vegna þéttingar byggðar við Snorrabraut en þrengt hefur verið markvisst að þeirri umferðaræð frá suðri til norðurs um borgina undanfarið á sama tíma og Rauðarárstíg sem liggur samhliða Snorrabraut nokkru austar hefur verið lokað við Hlemm. Pawel boðar að enn verði þrengt að umferð um Snorrabrautina með stækkun gangstétta.

Þegar varaborgarfulltrúinn talar um að í stað bílastæða komi „hágæðaalmenningssamgöngur“ er það aðför að heilbrigðri skynsemi. Reynslan kennir að orðagjálfur af þessu tagi er í ætt við margnota slagorðin „Miklubrautina-í-stokk“, „Sundabraut-á-brú“ eða „Vatnsmýrin-án-flugvallar“ sem notuð hafa verið áratugum saman til þess eins að blekkja fyrir kosningar.

Í kosningunum á liðnu ári létu of margir blekkjast af loforði ný-framsóknarmanna um breytingar á stjórn borgarinnar. Það reyndist enn eitt blekkingarloforðið: stefnan gegn fjölskyldubílnum er „grunnstefna“, líka fyrir Framsóknarflokkinn – eða ætlar hann að breyta henni?