29.8.2018 10:04

Bólusetningar hitamál víða

Rússnesku netttröllin skiptu liði. Sum þeirra studdu bólusetningar, önnur voru á móti. Þannig var alið á sundrung meðal almennings og kjósenda

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur vakið máls á óviðunandi stöðu bólusetninga hér á landi. Hún telur minni þátttöku í bólusetningum og mislingafaraldra í Evrópu mikið áhyggjuefni. Boðar hún tillögu í borgarstjórn um að almennar bólusetningar verði skilyrði fyrir inntöku barna í leikskóla borgarinnar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur ekki tímabært að skylda foreldra til að láta bólusetja börn sín.

Afstaðan til bólusetninga barna er pólitískt hitamál víða um lönd. Þar má nefna Ítalíu þar sem núverandi stjórnarflokkar, uppnámsflokkarnir Fimm-stjörnu-hreyfingin (til vinstri) og Bandalagið (til hægri) lýsa andstöðu við áform annarra flokka um að skylt verði að bólusetja börn gegn 10 sjúkdómum – kannski megi gera undantekningu vegna mislinga.

4498Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvað eftir annað varað við hættu á tengslum milli bólusetninga og einhverfu. Hann lætur sér ekki segjast í því efni þótt sérfræðingar segi að ekki liggi fyrir neinar sannanir um slík tengsl.

Fyrir viku birtist fréttagrein í breska blaðinu The Guardian um að vísindamenn við George Washington-háskóla í Washington DC hafi komist að því þegar þeir unnu að endurbótum á samskiptaháttum heilsgæslustarfsmanna á samfélagsmiðlum að rússnesk netttröll hefðu skipulega notað Twitter til að dreifa heimasmíðuðum upplýsingum um bólusetningar til að ýta undir ágreining í bandarísku forsetakosningunum árið 2016.

Rússnesku netttröllin skiptu liði. Sum þeirra studdu bólusetningar, önnur voru á móti. Þannig var alið á sundrung meðal almennings og kjósenda. Einnig kunni að vaka fyrir þeim sem stóðu að þessum upplýsingafölsunum að minnka viðnámsþrótt bandarískra barna og auka hættu á útbreiðslu smitsjúkdóma.

Í The Guardian segir að bandarísku læknarnir birti þessar niðurstöður sínar þegar menn standi frammi fyrir einni mestu útbreiðslu á mislingum í Evrópu á síðari tímum. Megi að nokkru rekja það til færri bólusetninga en áður. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 voru 41.000 tilvik mislinga skráð í Evrópu, fleiri en allt árið 2017.