23.11.2020 10:07

Bóluefni vekur vonir

Það er eins gott að þeir vandi sig sem hafa að atvinnu að miðla okkur fréttum og efla okkur traust í garð þess sem er í boði.

Vegna COVID-19-faraldursins setti þjóðaröryggisráð á fót sérstakan hóp til að fjalla um það sem ráðið kallaði upplýsingaóreiðu. Hópurinn skilaði skýrslu í október 2020. Þar er þessa skilgreiningu að finna:

„Upplýsingaóreiða, miðlun rangra eða misvísandi upplýsinga, t.d. með fölsunum eða með því að höfða markvisst til tilfinninga, getur orðið að kerfisbundnu tæki til þess að grafa undan staðreyndum, ala á sundrungu eða laska orðspor keppinauta. Áhrifin er hægt að magna enn frekar með því að nýta sér aðferðafræði tæknifyrirtækjanna, svo sem gagnasöfnun og gervigreind, til þess að hagræða skilaboðunum og finna móttækilega viðtakendur. Þegar skipulega er stuðlað að upplýsingaóreiðu getur það verið liður í að tvístra samheldni og samfélagsgerð með því að draga úr trausti almennings á milli hópa, og á ríkinu sjálfu og stofnunum þess.

Tæknibyltingu nútímans fylgja erfiðar áskoranir. Hver og einn þarf að kljást við heimspekilegar spurningar á borð við eðli og uppruna sannleikans þegar falsanir eru orðnar óaðfinnanlegar og hvort hægt sé að staðfæra það traust sem okkur er tamt í raunheimum yfir á netheima. Því er mikilvægt að þjálfa árvekni, gagnrýna hugsun og miðla- og upplýsingalæsi og skoða áhrifin af þessum tækninýjungum heildrænt á alla þætti samfélagsins.“

Að vikið sé að þessu hér og nú má rekja til frétta sem okkur er miðlað um þessar mundir um bóluefni gegn kórónuveirunni. Þar er ekki aðeins í húfi að vinna sigur á veirunni með því að snúa sem fyrst vörn í sókn heldur einnig virðing og fjármunir hjá þeim sem vinna að gerð bóluefnisins.

Á ótrúlega skömmum tíma hefur vísindamönnum og fyrirtækjum tekist að þróa og prófa bóluefni og er jafnvel búist við að um miðjan desember hefjist dreifing á bóluefni í Bandaríkjunum fáist „neyðarsamþykki“ Matvæla- og lyfjastofnunar landsins (FDA).

1242070Í stuttum fréttum er sagt að bóluefni hafi 90 til 95% virkni, sum þarf að geyma við 70 til 80 gráðu frost þar til skömmu fyrir notkun, önnur hafa 70% virkni í einum skammti en 90% sé gefinn einn og hálfur skammtur. Sum efni eru sögð dýrari en önnur.

Til að beiting bóluefnisins nái þeim árangri sem að er stefnt þarf að sannfæra hluta mannkyns sem hefur stækkað undanfarin ár, meðal annars vegna upplýsingaóreiðu, að nauðsynlegt og óhætt sé að láta bólusetja sig.

Eins og jafnan þegar nýjungar koma til sögunnar hefjast umræður um ójöfnuð og misskiptingu í heiminum, sum ríki hafi efni á að útvega borgurum sínum bóluefni önnur ekki.

Milljarðar og aftur milljarðar dollara eru í húfi. Kannski er þetta mesta vísinda- og peningakeppni í sögu mannkyns.

Það er eins gott að þeir vandi sig sem hafa að atvinnu að miðla okkur fréttum og efla okkur traust í garð þess sem er í boði. Í ástandi eins og því sem er á næsta leiti þegar þjóðir hverfa úr innilokuninni er mikið í húfi.