5.8.2021 10:01

Boltinn frá Ólafi Þ. Harðarsyni

Tilraun stjórnarandstöðunnar til að skora mark með boltanum frá Ólafi Þ. Harðarsyni er dæmd til að mistakast. Það er einfaldlega um virka rangstöðu að ræða.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag (5. ágúst) segir menningarristjóri blaðsins:

„Hinn skemmtilegi og geðþekki Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, vakti athygli á því á dögunum að núverandi kosningakerfi tryggir ekki samræmi milli atkvæðamagns og þingsæta.“

Aðdáunin leynir sér ekki. Prófessorinn gaf í fréttum ríkissjónvarpsins sunnudaginn 1. ágúst, um verslunarmannahelgina, upp bolta á lokavikum kosningabaráttunnar. Kolbrún segir:

„Nú má vel vera að einstaka stjórnmálaflokkar sjái sér beinlínis hag í því að viðhalda þessu óréttláta kerfi því í kosningum geti það úthlutað þeim meira en réttlátt er miðað við atkvæðamagn. Meðan svo er standa þessir sömu flokkar staðfastlega vörð um ólýðræðislegt kosningakerfi. Spillt hugarfar, myndi einhver segja.“

Stjórnarandstæðingar í systurflokkunum Pírötum og Samfylkingu flagga ummælum Ólafs Þ. Harðarsonar og lýsa sjálfa sig fórnarlömb kerfisins.

496735Flokkarnir sem Kolbrún kallar verði „ólýðræðislegs kosningakerfis“, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, höfðu meirihluta á þingi og sátu í ríkisstjórninni árið 1999 sem beitti sér fyrir stjórnarskrárbreytingu svo að auðveldara yrði með lögum að tryggja samræmi milli atkvæðamagns og þingsæta.

Ólafur Þ. Harðarson sagði ekki alla söguna. Í desember 2020 mælti Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis, fyrir frumvarpi að kosningalögum sem samið var af starfshópi undir formennsku Bryndísar Hlöðversdóttur, þáv. ríkissáttasemjara  

Áður en þingforseti lagði frumvarpið fram bað hann Ólaf Þ. Harðarson um álit og gaf hann það í bréfi 4. október 2020 sem lagt var fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins 25. janúar 2021 eins og sjá má á vef alþingis. Prófessorinn telur frumvarpið til „stórfelldra bóta“ en starfshópur Bryndísar hafi hins vegar talið utan „starfssviðs“ síns að breyta lagaákvæðum um jöfnunarsæti.

Þingnefndin undir formennsku píratans Jóns Þórs Ólafssonar fjallaði um frumvarpið frá desember 2020 til 8. júní 2021 þegar hún skilaði áliti þar sem segir meðal annars: „Vinna nefndarinnar miðaði að því að sameinast um heildarendurskoðunina sem allir umsagnaraðilar voru sammála um að væri mikilvægt að klára.“

Þennan sama dag, 8. júní 2021, lögðu stjórnarandstæðingarnir Björn Leví Gunnarsson, Pírötum, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Viðreisn, og Guðmundur Andri Thorsson, Samfylkingu, fram breytingartillögu án greinargerðar um úthlutun jöfnunarsæta.

Tillaga var hrein sýndarmennska á þessu stigi málsins, hún kom aldrei til umræðu eða skoðunar áður en stóri bálkurinn um kosningar varð að lögum 12. júní 2021.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna (VG), brást við ummælum Ólafs Þ. Harðarsonar og sagði að mun lengri tíma en gefinn var í vor hefði þurft til að ræða tillögur minnihlutans um breytingar á atkvæðavægi.

Prófessorinn svarar þessum ummælum þingflokksformannsins í hneykslunartón, Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir Bjarkey og Þorbjörg Sigríður lætur eins og sýndarmennska hennar á elleftu stundu sé marktækt framlag til málsins. Kolbrún Bergþórsdóttir blæs á rök Bjarkeyjar.

Tilraun stjórnarandstöðunnar til að skora mark með boltanum frá Ólafi Þ. Harðarsyni er dæmd til að mistakast. Það er einfaldlega um virka rangstöðu að ræða.