9.1.2023 9:21

Bolsonaro - Trump - Sólveig Anna

Nú er Sólveig Anna formaður Eflingar stéttarfélags og sakar aðra verkalýðsformenn sem hafa samið til eins árs fyrir félagsmenn sína um að hafa „stolið“ kjarasamningi af Eflingu.

Þúsundir stuðningsmanna Jairs Bolsonaros, fyrrverandi forseta Braslilíu, komu saman í opinberri höfuðborg landsins og stjórnarsetri, Brasilíu, sunnudaginn 8. janúar og réðust á þinghúsið, aðsetur hæstaréttar og forsetaskrifstofuna. Þeir héldu því ranglega fram að kosningasigri hefði verið stolið frá Bolsonaro í október þegar Luiz Inácio Lula da Silva, þekktur sem Lula, var kjörinn forseti. Rúmlega fimm klukkustundir liðu þar til herlögregla hafði endurheimt byggingarnar. Um 200 manns voru handteknir.

Forystumenn og stjórnmálaleiðtogar um heim allan lýstu skömm á þessari aðför að æðstu stjórnarstofnunum Brasilíu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í þeim hópi og sagði hún á Twitter að atburðirnir í Brasilíu væru áminning um að ekki mætti taka lýðræði sem sjálfsögðum hlut, alþjóðasamfélagið yrði að vinna saman til að verja lýðræðisleg gildi.

Fréttaskýrendur innan og utan Brasilíu segja að þarna hafi stuðningsmenn Bolsonaros farið að fordæmi frá Washington 6. janúar 2021 þegar stuðningsmenn Donalds Trumps brutust inn í þinghúsið þar vegna þess að Joe Biden hefði stolið kosningasigrinum frá átrúnaðargoði þeirra.

09ambriefing-europe-nl-brazil-articleLargeÁrásin á stjórnarstofnanir í Brasilíu 8. janúar 2023.

Allt er þetta öfgakennt og utan skynsamlegra marka. Við þurfum þó ekki að fara langt til að kynnast leiðtoga sem ýtir undir deilur með öfgum.

Sólveig Anna Jónsdóttir var á sínum tíma dæmd í 100.000 kr. sekt fyrir brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu þegar hún ruddist inn í Alþingishúsið 8. desember 2008.

Nú er Sólveig Anna formaður Eflingar stéttarfélags og sakar aðra verkalýðsformenn sem hafa samið til eins árs fyrir félagsmenn sína um að hafa „stolið“ kjarasamningi af Eflingu. Hún skarst þó sjálf úr leik þegar kom til samflotsins svonefnda og samið var við Samtök atvinnulífsins (SA), fyrst 3. desember 2022 undir forystu Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins og verkalýðsfélagsins á Akranesi.

Vilhjálmi blöskraði þegar Sólveig Anna rökstuddi sérstöðu sína með því að framfærslukostnaður væri hærri í Reykjavík en annars staðar. Vilhjálmur sagði 7. janúar á visir.is: „„Þannig að mér finnst þessi nálgun forsvarsmanna Eflingar með ólíkindum og í raun og veru til skammar.“

Halldór Benjamín Þorbergsson segir á ruv.is í dag, mánudag 9. janúar, að samið hafi verið við 80.000 manns hringinn í kringum landið. Deilan við Eflingu sé því ekki venjuleg kjaradeila. SA geti ekki vikið frá samningsmarkmiðum og útlínum í undirrituðum samningum. Halldór Benjamín sagði:

„Þeir sem semja við SA verða að geta treyst því að við verjum þá línu sem mörkuð er í stefnumarkandi kjarasamningum. Efling ætlar ekki að sættast á það og því er Efling stödd í þeim vanda sem við sjáum nú um þessar stundir.“

Sólveig Anna veit hvert hún leiðir félagsmenn sína. Hún vissi einnig hvert hún fór með hreinsunum á skrifstofu Eflingar. Henni er nákvæmlega sama.

Þegar lífskjarasamningarnir voru gerði kaus Sólveig Anna að vera sér á báti og sýndi ofríki á vinnustöðum við verkfallsaðgerðir. Það stefnir í sama ástand núna, annað þjónar ekki lund hennar.