28.7.2022 9:46

Bölmóður formanns VR

Bölmóðurinn núna af hálfu Ragnars Þórs fyrir frídag verslunarmanna er í raun hræðsluáróður. Hvaða tilgangi þjónar hann? Allir vita að samið verður um kaup og kjör að lokum.

Frídagur verslunarmanna var fyrst haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 13. september 1894 til að starfsmenn stærri verslana í Reykjavík gætu skemmt sér.

Hugmyndin að frídeginum var sótt til Danmerkur og má e.t.v. kalla hann fyrsta vísi að orlofi launafólks á Íslandi, en ekki tíðkaðist að veita launafólki sumarfrí, segir á vefsíðu Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) sem kom strax að því að skipuleggja skemmtanir á frídeginum. Árið 1931 var fyrsti mánudagur í ágúst var valinn fyrir frídaginn og tengdist það breytingu á samþykkt um lokunartíma verslana. Upp úr miðri síðustu öld varð dagurinn að almennum frídegi.

Ætla mætti að þegar þessi dagur nálgaðist nú árið 2022 þegar að nýju er unnt að njóta hans til að hittast og skemmta sér eftir takmarkanir COVID-tímans mundu forystumenn VR leggja sig fram um að blása félagsmönnum sínum bjartsýni og fögnuð í brjóst.

Verslunarmannahelgi_previewVínbúðin hvatti viðskiptavini til að vera snemma á ferðinni fyrir verslunarmannahelgina til að forðast biðraðir í vikulok.

Í fréttum ríkisútvarpsins í gær (27. júlí) ríkti svartsýni hjá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Hann dró upp dökka mynd af því sem blasti við félagsmönnum sínum. Hann boðaði hörð átök á vinnumarkaði í haust þegar mörg hundruð kjarasamningar yrðu lausir, sakar stjórnvöld um „aðgerðarleysi“ og segir stéttarfélögin „úti í kuldanum“.

Þetta var sem sagt enginn gleðiboðskapur fyrir þá sem ætluðu að skemmta sér um helgina. Þegar á formanninn var hlustað sætti raunar furðu að hann kallaði ekki félagsmenn sína frekar til „aðgerða“ en að þeir gerðu sér glaðan frídag.

Lét Ragnar Þór eins og hann hefði séð allt fyrir sem nú gerist í efnahagsmálum heimsins og hefur áhrif hér. „Við höfum verið að benda á þetta í yfir ár, alvarleikann, og í rauninni bara vanmat Seðlabankans, stjórnvalda og greiningardeilda bankanna á stöðunni sem er að raungerast núna,“ sagði hann af hógværð.

Man einhver eftir því að formaður VR hafi fyrir rúmu ári bent á að í febrúar 2022 mundi Vladimir Pútin Rússlandsforseti gefa fyrirmæli um innrás í Úkraínu? Að orkuverð færi upp úr öllu valdi í heiminum? Fæðuöryggi yrði ógnað?

Sérvandi hér er skortur á húsnæði. Þar ræður mestu lóða-aðhaldsstefna vinstri meirihlutans í Reykjavík sem miðar að því að knýja fram sem hæst verð í húsum sem reist eru á sérvöldum blettum til að þétta byggð. Þá er skipulögð skuggabyggð til að tryggja afnot af borgarlínu sem er í lausu lofti og enginn veit hvernig verður jarðtengd.

Bölmóðurinn núna af hálfu Ragnars Þórs fyrir frídag verslunarmanna er í raun hræðsluáróður. Hvaða tilgangi þjónar hann? Allir vita að samið verður um kaup og kjör að lokum. Við blasir að verðbólga skerðir kaupmátt hér eins og hvarvetna. Af hálfu stjórnvalda var strax í vor gripið til aðgerða til að tryggja hlut þeirra sem standa veikastir gagnvart verðbólgunni. Allir hljóta að vona að þeir sem semja beri gæfu til að reisa samningana á raunhæfum grunni.

Í aðdraganda kjarasamninga skiptir miklu að rugla ekki fólk í ríminu með upplýsingafölsunum. Þær koma þeim auk þess verst að lokum sem flytja þær.