9.4.2017 13:47

Bolli af cappuccino dýrastur á Íslandi

Frakkarnir sem voru samferða okkur í flugvélinni þurfa að greiða tvöfalt hærra verð fyrir kaffibollann hér á landi en í Frakklandi. Enginn þarf að segja mér að það sé íslensku krónunni að kenna en hún er jafnan blóraböggullinn þegar fundið er að háu verðlagi hér. Stafar háa verðið ekki mest af eftirspurninni og skorti á samkeppni?

Flugum heim með WOW í gærkvöldi frá París. Allt var á áætlun, raunar var lent 25 fyrir áætlaðan tíma. Allt um kring í vélinni mátti sjá fólk lesa frönsku útgáfuna af Lonely Planet um Ísland sem fær mjög góðar umsagnir á Amazon.fr svo að ég vitni í það sem ég veit um bókina. Hún sé læsileg og gefi góða mynd af landi og þjóð.

51YFVy1gY-L._SX322_BO1,204,203,200_

Ég las hins vegar tímaritið Le Point sem birti langt viðtal við François Fillon, frambjóðanda Lýðvelfisflokksins (mið-hægri), í frönsku forsetakosningunum eftir tvær vikur. Hann geri sér enn vonir um að komast í aðra umferðina 7. maí illa horfi fyrir hann í skoðanakönnunum. Kosningaspjöld voru almennt ekki komin upp á götum Parísar en á eitt plakat með mynd af Fillon sá ég að krotað hafði verið orðið Voleur, þjófur. Vísar það til ásakana á hendur honum og fjölskyldu hans fyrir að hafa misfarið með opinbert fé.

Í Le Point var lítill dálkur þar sem birtur var listi yfir lönd þar sem dýrast væri að lifa og innan sviga hvað kostaði að fá sér einn bolla af cappuccino.

1. Bermuda trónaði í efsta sæti (4,30€), 2. Sviss (4,30€), 3. Hong Kong (4,19€) og 4. Ísland (4,66€). Frakkland er í 28. sæti á þessum lista og þar kostar bollinn af cappuccino 2,64€.

Af þessari skrá má ráða að dýrast sé að fá sér cappuccino á Íslandi og Frakkarnir sem voru samferða okkur í flugvélinni þurfi að greiða tvöfalt hærra verð fyrir kaffibollann hér á landi en í Frakklandi. Enginn þarf að segja mér að það sé íslensku krónunni að kenna en hún er jafnan blóraböggullinn þegar fundið er að háu verðlagi hér. Stafar háa verðið ekki mest af eftirspurninni og skorti á samkeppni?

Íslandsbanki gaf í byrjun mars 2017 út skýrslu um íslenska ferðaþjónustu í þriðja sinn. Er skýrslunni ætlað að gefa jafnt innlendum sem erlendum aðilum innsýn í þróun greinarinnar og stöðu hennar hverju sinni.

Þar segir meðal annars:

„Við spáum því að um 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja Ísland á þessu ári sem nemur fjölgun um 30% frá síðasta ári. Gangi spáin eftir mun ferðamönnum fjölga um 530 þús. milli ára 2016 og 2017 sem er mesta fjölgun ferðamanna á einu ári hér á landi.

Næsta sumar verður einn af hverjum fimm sem hér eru á landi ferðamaður.

Við spáum því að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum verði um 560 ma.kr. í ár, eða sem nemur um 45% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Til samanburðar áætlum við að gjaldeyristekjur af erlendum ferðmönnum hafi numið 466 mö.kr. í fyrra eða 39% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Hver ferðamaður sem kom inn í landið skilaði um 202 þús.kr. til þjóðarbúsins og eru tveir stærstu útgjaldaliðir ferðamanna flugfargjöld og gisting.

Rúmlega 90% erlendra ferðamanna ferðast hingað til lands með flugi. Til samanburðar er þetta hlutfall um 54% í ríkjum OECD.

Reiknum við með því að innlendu félögin tvö muni standa fyrir um 75% flugframboðs um KEF á árinu 2017. Icelandair verður stærsta flugfélagið í Keflavík með tæplega helmingi flugframboðs um flugvöllinn en  WOW næst stærst með tæplega þriðjung framboðsins.

[...]

Gistiþjónusta nemur um 21% af heildarútgjöldum erlendra ferðamanna hér á landi.

Hlutfallslega fleiri erlendir ferðamenn velja nú að gista í íbúða-, orlofshúsi eða í heimagistingu og færri á hótelum og gistiheimilum en á árinu 2010.

[...]

Í samanburði við Norðurlöndin var verð hótelherbergja á árinu 2016 hæst í Reykjavík og var það á bilinu 10%-32% hærra en í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna.

[...]

Á síðastliðnu ári var meðalfjöldi virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík 2.000 og fjölgaði þeim um 116% sem nemur rúmlega tvöföldun frá árinu á undan.

[...]

Haldi gistiþjónusta í gegnum Airbnb áfram að vaxa líkt og á undanförnum árum má ætla að afkastageta Airbnb í Reykjavík verði orðin sambærileg og hjá öllum hótelum höfuðborgarsvæðisins til samans á líðandi ári.

Bílaleiguflotinn taldi 20.847 bíla þegar hann var hvað stærstur á árinu 2016 samanborið við 15.400 bíla árið 2015. Það jafngildir því að næstum 1 af hverjum 10 bílum á landinu sé bílaleigubíll.

[...]

Búist er við að velta bílaleigugreinarinnar muni nema allt að 60 milljörðum króna á árinu 2017, samanborið við 35 milljarða árið 2015.

[...]

Í fyrra var metár í fjölgun ferðamanna þrátt fyrir metár í styrkingu krónunnar. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur haft mikil áhrif til styrkingar á krónunni. Sterk króna hefur hins vegar neikvæð áhrif á greinina.

Gengi krónunnar var 16% hærra í desember 2016 en á sama tíma árið áður. Mest var hækkunin gagnvart pundinu (38%) en mun minni hefur hún verið gagnvart dollaranum (15%) og evrunni (19%). Frá þessum myntsvæðum eru u.þ.b. tveir af hverjum þremur ferðamönnum sem hingað koma.

Þrátt fyrir lækkun pundsins fjölgaði breskum ferðamönnum hér á landi um ríflega 31% á síðasta ári og er vöxturinn viðlíka og hann var tvö árin þar á undan. Þó telja fleiri Bretar að ferðin hafi ekki verið peninganna virði nú en áður og dvelja þeir einnig skemur hér á landi.

Norska krónan hefur lækkað um 42% frá 2013 og fækkaði norskum ferðamönnum á Íslandi á síðustu tveimur árum.

Verð á veitingastöðum og á gistiþjónustu var 44% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2015 og er Ísland fjórða dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.

Verð á farþegaflutningum var 52% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2015 og er Ísland dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.

Verð á afþreyingar- og menningartengdum viðburðum var 38% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2015 og er Ísland þriðja dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.

Áfengir drykkir voru 126% dýrari á Íslandi en að meðaltali í aðildarríkjum ESB á árinu 2015 og er Ísland annað dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.

Föt og skór voru 53% dýrari á Íslandi en að meðaltali í aðildarríkjum ESB á árinu 2015 og er Ísland dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.

Önnur verslun var 33% dýrari á Íslandi en að meðaltali í ríkjum innan ESB og er Ísland fimmta dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.“

Þegar rætt er um gengi krónunnar virðist nær alltaf aðeins litið á hana frá sjónarhóli útflytjenda eða þeirra sem selja þjónustu til útlendinga. Sjaldnar er litið á hliðina sem snýr að lægri kostnaði við innflutning. Þrengi að þeim sem afla gjaldeyris verður krafan hávær um að allir taki á sig að létta undir með þeim með lægra gengi, síður er spurt um hvað sé gert til að hagræða eða spara í rekstri.  

Greining Íslandsbanka á framtíðarhorfum í ferðaþjónustu bendir ekki til að þar sé um neitt neyðarástand að ræða. Hver og einn verður að bjarga sér innan þess almenna ramma sem er settur og laga sig að breytingum.

Reykjavíkurborg hefur nú sett hertar reglur til að takmarka þjónustu sem veitt er undir merkjum Airbnb. Hér skal því spáð að framkvæmd þeirra reglna sé líklegri til að draga úr komu ferðamanna til landsins en gengi krónunnar.